„Þetta er búið að eyðileggja jólin“

Mynd: RÚV / RÚV

„Þetta er búið að eyðileggja jólin“

22.12.2020 - 23:08

Höfundar

COVID-19 faraldurinn og takmarkanirnar sem þeim fylgja í Bretlandi hafa í raun eyðilagt jólin fyrir Bretum, segir íslensk kona sem er búsett þar. Stemningin er rólegri en venjulega um jól en vöruskortur veldur áhyggjum.

Bretar hertu aðgerðir verulega á flestum stöðum í síðustu viku vegna mikillar fjölgunar COVID nítján smita og er fólki almennt sagt að halda sig heima. Það hafa Íslendingar orðið varir við. 

Lísa Pétursdóttir, býr í Portsmouth. „Lögreglan er mjög dugleg við að stoppa fólk og spyrja: Af hverju ertu að ferðast?  Og ef þú segir: Ég er að fara til mömmu um jólin þá færðu sekt.“

Þetta er búið að eyðileggja jólin þannig séð, það er bara engin jólastemning. 

Íslendingur í London segir notalega stemningu þar. Meira líf var fyrri part mánaðar, en svo var börum lokað, og því næst verslunum.

„Þá er náttúrulega ekki hægt að fara í jólarölt og kaupa jólagjafir. Miðbærinn tæmist eiginlega alveg,“ segir Bryndís Silja Pálmadóttir, sem býr í London.

Bryndís segist hafa ákveðið í nóvember að vera í London um jólin vegna stöðunnar á Íslandi.

„Okkur fannst ekki rökrétt að koma heim þegar staðan er eins og hún er heima og geta kannski ekki hitt ömmu og afa eða knúsað alla sem við vildum knúsa og ákváðum bara að vera hérna yfir jólin. Þetta eru fyrstu jólin okkar bara tvö.“

Þannig er staðan alls ekki hjá Lísu. Fjölskylda hennar frá Íslandi dvelur hjá henni og tók með sér íslenskan mat. Hún segir þó erfitt að segja frá því.

„Ég fékk til dæmis skilaboð frá breskri vinkonu minni í gær þar sem hún sagði: Gleðileg jól og njóttu þess að vera með fjölskyldunni, eina manneskjan í Bretlandi sem fær að vera með fjölskyldunni sinni um jólin. Sem eru náttúrulega ýkjur en þá fékk ég smá samviskubit.“

Báðar hafa þær orðið varar við tómar hillur í verslunum.
„Ég hef smá áhyggjur af þessu af því að við erum ekki búin að kaupa í jólamatinn,“ segir Bryndís.

„Það er verið að vara okkur við því að það verði erfitt að fá grænmeti og ávexti en svo segir Boris Johnson okkur að hafa engar áhyggjur og versla eins og venjulegt er. Búðirnar segja okkur hins vegar að það séu ekki að koma neinar sendingar,“ segir Lísa

 

Tengdar fréttir

Fótbolti

Föst í London og heldur upp á jólin með hundinum

Evrópa

Frakkar opna fyrir Bretum á ný í skugga metfjölda smita

Innlent

Komust ekki á leiðarenda en lentu í sóttkví yfir jólin

Ferðaþjónusta

Hvetja ríki til að draga úr takmörkunum gagnvart Bretum