Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Ráðherrarnir komnir til Seyðisfjarðar að skoða aðstæður

22.12.2020 - 11:07
Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Ólafsson - RÚV
Ráðherrarnir fjórir í ríkisstjórn Íslands ásamt fulltrúum Almannavarna eru komnir til Seyðisfjarðar. Þar skoða þau aðstæður eftir aurflóðin sem féllu á bæinn í síðustu viku. Þar er hættustig enn í gildi og rýming að hluta. 

Þau Katrín Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra flugu til Egilsstaða í morgun. Þar áttu þau fund með sveitarstjóra og forseta sveitarstjórnar í Múlaþingi.

Mynd: Freyr Arnarson / RÚV

Um klukkan 10 lögðu þau á Fjarðarheiðina. Á Seyðisfirði ræða ráðherrarnir við íbúa og hitta björgunarfólkið sem hefur staðið vaktina síðan fyrsta aurskriðan í þessari hrinu féll fyrir viku síðan.

Ráðherrunum verður afhend bók um húsasögu Seyðisfjarðar í dag. Margar þeirra menningarminja sem fjallað er um í bókinni lentu í skriðunum og eru ýmist ónýtar eða stórskemmdar. Eigendur sumra þessara húsa hafa kostað stórfé í að gera þessi hús upp á síðustu árum.

Síðdegis í dag liggur leiðin svo aftur upp á Hérað þar sem enn verður fundað með fulltrúum sveitarfélagsins Múlaþings, áður en flogið verður aftur til Reykjavíkur undir kvöld.