Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Nýjum tilfellum COVID-19 fækkar í Sydney

22.12.2020 - 03:55
epa08890965 NSW Premier Gladys Berejiklian addresses the media during a press conference in Sydney, Australia, 18 December 2020. Residents of Sydney's northern beaches have been asked to stay home for three days as the number of new COVID-19 cases rises.  EPA-EFE/JANIE BARRETT / POOL  AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - AAP / SMH POOL
Undanfarna tvo daga hefur nýjum kórónuveirutilfellum fækkað í Sydney í Ástralíu. Það glæðir vonir íbúa borgarinnar um að geta haldið jól með fjölskyldu og vinum en í síðustu viku var gripið til hertra aðgerða til að stemma stigu við skyndilegri útbreiðslu veirunnar.

Tímabundið útgöngubann var fyrirskipað en fólk flykktist í skimun sem aldrei fyrr, niðurstaðan er sú að fimmtán ný tilfelli greindust á mánudag og átta í gær. Yfirvöld vara þó við að faraldurinn gæti enn verið í vexti.

Gladys Berejiklian, forsætisráðherra Nýju Suður Wales, lofsyngur viðbrögð almennings enda hafa yfir 83 þúsund verið skimaðar undanfarna tvo daga. Hún bendir þó á að smitaðir kunni að hafa farið langt og víða áður en gripið var til hertra aðgerða og því þurfi að hinkra við uns fullra áhrifa þess gætir.

Tölurnar gætu hækkað því þótt greind smit séu fá dreifist þau mjög um svæðið. Heilbrigðisyfirvöld raðgreina íbúana í óða önn sem hefur orðið til þess að þúsundir þurfa að vera í fjórtán daga sóttkví.

Yfirvöld heita íbúum Nýju Suður Wales því að sóttvarnaraðgerðir verði endurskoðaðar á miðvikudag, daginn fyrir aðfangadag. Alls hafa 28 þúsund greinst með COVID-19 í Ástralíu og 908 látist.