Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Morðingi ungrar breskrar konu nafngreindur

22.12.2020 - 04:26
Auckland
 Mynd: DXR/WikiCommons
Karlmaður sem myrti unga breska konu, Grace Millane að nafni, á Nýja Sjálandi fyrir tveimur árum hefur verið nafngreindur. Á sama tíma var upplýst að hann var dæmdur sekur á þessu ári fyrir mjög alvarleg kynferðisbrot gegn tveimur öðrum konum.

Hæstiréttur Nýja Sjálands sneri í gær við þeirri ákvörðun undirréttar að nafngreina manninn ekki. Jesse Shane Kempson var dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir morðið á Millane í nóvember á síðasta ár en þá tók rétturinn þá óvenjulegu og óútskýrðu ákvörðun að halda nafni hans leyndu.

Eftir að dómar féllu í kynferðisbrotamálunum gegn honum var upplýst að tilgangurinn var að koma í veg fyrir að morðdómurinn hefði áhrif á niðurstöður þeirra mála. Beiðni hans um áfrýjun var hafnað í liðinni viku og það varð endanlega til þess að greint var frá nafni hans.

Grace Millane hvarf sporlaust í Auckland daginn áður en hún varð 22 ára í desember 2018. Lík hennar fannst í útjaðri borgarinnar nokkrum dögum síðar og þá var Kempson handtekinn.

Þau höfðu kynnst í gegnum stefnumóta-appið Tinder og þannig komst Kempson einnig í kynni við konurnar tvær sem hann braut kynferðislega gegn.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV