Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Mikill vöxtur hjá Kerecis

22.12.2020 - 05:32
Ísafjörður, Kerecis, Rúv myndir
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.IS
Tekjur íslenska fyrirtækisins Kerecis sem framleiðir afurðir byggðar á affrumuðu þorskroði tvöfölduðust rúmlega milli áranna 2019 og 2020. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu fyrirtækisins sem hélt aðalfund sinn í síðustu viku.

Vörur fyrirtækisins eru notaðar til meðhöndlunar á þrálátum sárum og brunasárum, einkum hjá fólki með sykursýki, svokallað sáraroð.

Fram kemur að Kerecis sé það fyrirtæki sem hvað hraðast hafi vaxið á markaði fyrir húðlíki í Bandaríkjunum, eða um 120% samkvæmt niðurstöðum greiningarfyrirtækisins SmartTRAK Business Intelligence.

Ólafur Ragnar Grímsson fyrrverandi forseti Íslands er stjórnarmaður í Kerecis en Guðmundur Fertram er stofnandi þess og forstjóri. Hann segir að sykursjúkir leiti nú seinna til læknis vegna sára sinna, sem þýði að þau eru orðin stærri þegar þeir koma. Þá séu þau frekar meðhöndluð með flóknari vörum á borð við sáraroðið.