
Launahækkanir leiða til dýrari póstsendinga
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Póst- og fjarskiptastofnunar, sem sá ekki ástæðu til að gera athugasemd við beiðni Póstsins.
Í tilkynningu frá Póstinum frá 30. nóvember segir að verðbreytingin sé í takt við verðlagsbreytingar sem og að gjaldskrá fyrirtækisins hafi ekki verið breytt síðan í byrjun síðasta árs. Þá hækkaði verð fyrir bréf að 51-2000 gramma þyngd um tíu prósent. Við upphaf ársins þar á undan hækkaði verð fyrir póstlagningu bréfa að 0-50 gramma þyngd um fjögur prósent.
Í bréfi Póstsins til Póst- og fjarskiptastofnunar 11. desember veitti fyrirtækið frekari skýringar á þessum hækkunum að ósk stofnunarinnar. Þær eru:
- Þróun magns á undanförnum árum sem og áætlaða magnminnkun á árinu 2021
- Upplýsingar úr afkomulíkani fyrir fyrstu 9 mánuði ársins 2020
- Hækkun launa vegna kjarasamninga
- Upplýsingar um áætlun ársins 2021 (rekstur og magn)
Tap er af þeim vörum sem falla undir alþjónustu líkt og póstsendingar af þessu tagi. Á undanförnum árum hefur magn bréfapósts minnkað gríðarlega. Útlit er fyrir að að póstsendingum undir 50 gr. fækki um 27% og póstsendingum í flokkunum 51- 2000 gr. fækki um 19% á þessu ári.
Almenn bréf | Núverandi verð | Nýtt verð | Verðbreyting |
0-50 g | 195 | 224 | 15% |
51-100 g | 230 | 265 | 15% |
101-250 g | 250 | 288 | 15% |
251-500 g | 315 | 550 | 15% |
501-1000 g | 550 | 633 | 15% |
1001-2000 g | 720 | 828 | 15% |
Almenn bréf | Núverandi magn verð | Nýtt magn verð | Verðbreyting |
0-50 g | 140 | 161 | 15% |
51-100 g | 210 | 242 | 15% |
101-250 g | 230 | 265 | 15% |
251-500 g | 295 | 339 | 15% |
501-1000 g | 510 | 587 | 15% |
1001-2000 g | 680 | 782 | 15% |
Í áðurnefndri tilkynningu Póstsins frá nóvemberlokum kom einnig fram að fyrirhuguð væri heildstæð endurskoðun á vöruflokknum og hugsanlega verði hann endurskipulagður þar sem magn slíks pósts hefur dregist mikið saman undanfarin ár.
Til samanburðar má nefna að gjald fyrir 0-50 gramma bréf í Svíþjóð er 183 krónur, 229 kr. í Danmörku, 264 kr. í Noregi og í Finnlandi 272 krónur, miðað við miðgildi íslensku krónunnar 16. desember samkvæmt Seðlabanka Íslands.