Hér má hlýða á umfjöllun Lestarinnar á Rás 1 um Cyberpunk 2077.
Playstation Store, sem er í eigu Sony, tilkynnti í dag að sölu leiksins yrði hætt og allir sem hann hafa keypt geta fengið endurgreitt. Microsoft, sem selur leikinn gegnum Xbox Store, ætlar ekki að taka hann úr sölu en kaupendur geta óskað að fá endurgreitt.
Cyberpunk 2077 er framleiddur af pólska leikjaframleiðandanum CD Projekt Red. Upphaflega var hann kynntur árið 2012, aftur 2018 og 2019 birtist kynningarefni fyrir leikinn með leikaranum Keanu Reeves.
Útgáfu Cyberpunk 2077 var ítrekað frestað og gaf CD Projekt Red þær útskýringar að verið væri að vinna í hnökrum í honum. Hann hefur hlotið afar góða dóma gagnrýnenda frá því hann kom út 10. desember, þrátt fyrir galla á honum.
Frá útgáfu hafa notendur eldri gerða leikjatölva, Playstation 4 frá Sony og Xbox One frá Microsoft, ítrekað kvartað yfir vandræðum í spilun hans. Leikurinn er gjarn á að frjósa og vera hægvirkur, grafíkin léleg og jafnvel alfarið hætt að virka. Sony segir að ekkert sé fyrirtækinu mikilvægara en ánægðir viðskiptavinir og hefur því gripið til þessa ráðs.
Important Update for @PlayStation Users pic.twitter.com/fCB4z74M3z
— Cyberpunk 2077 (@CyberpunkGame) December 18, 2020
Notendur nýjustu gerða leikjatölva, Playstation 5 og Xbox Series X, hafa ekki átt í jafn miklum vandræðum við spilun hans og það sama má segja um þá sem spila hann á öflugum PC-tölvum.
CD Projekt Red hefur tilkynnt að unnið sé hörðum höndum að því að uppfæra leikinn og viðurkennt að fyrirtækið hefði átt að einbeita sér meira að spilanleika hans á eldri gerðum leikjatölva. Það gerir ráð fyrir að uppfæra hann í janúar og febrúar.
— Cyberpunk 2077 (@CyberpunkGame) December 14, 2020