Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Bærinn dæmdur til að greiða milljarð í Vatnsendadeilu

Mynd með færslu
 Mynd: Kópavogsbær
Kópavogsbær hefur verið dæmdur í Héraðsdómi Reykjaness til þess að greiða dánarbúi Sigurðar K. Hjaltesteds tæpan milljarð króna, 968 milljónir, vegna eignarnáms Kópavogsbæjar á landi á Vatnsenda árið 2007. Fjárhæðin ber vexti frá apríl 2010. Bærinn var sýknaður af kröfum erfingja Sigurðar vegna eignarnáms á landi við Vatnsenda árin 1992, 1998 og 2000.

Kópavogsbær fer nú yfir niðurstöðuna í samráði við lögmenn bæjarins samkvæmt tilkynningu frá bænum og er ekki búið að taka ákvörðun um hvort dóminum verður áfrýjað til Landsréttar. 

Erfðaskrá frá 1938 þrætueplið

Upphaf deilunnar má rekja aftur til 1938 þegar Magnús Einarsson Hjaltested úrsmiður gerði erfðaskrá um jörð sína Vatnsenda og arfleiddi Sigurð K. Hjaltested, sonarson bróður síns, að öllum eignum sínum. Sigurður var tvíkvæntur og hafa deilur staðið yfir um hver sé réttmætur eigandi jarðarinnar eftir fráfall hans árið 1966. 

Árið 2013 dæmdi Hæstiréttur dánarbú Sigurðar réttmætan eiganda landsins en ekki Þorstein Hjaltested, barnabarn Sigurðar, og fjölskyldu hans. Þorsteinn, sem lést 2018, þáði eignarnámsbætur vegna jarðarinnar frá  Kópavogsbæ 2007 en hann var þá skráður sem þinglýstur eigandi hennar.

Máli dánarbús Þorsteins gegn bænum enn ólokið

Í apríl 2014 var Kópavogsbæ birt stefna af hálfu hluta erfingja Sigurðar K. Hjaltested, fyrrum ábúanda á Vatnsenda. Aðalkrafa stefnenda var sú að Kópavogsbær greiddi dánarbúi Sigurðar tæpa 75 milljarða króna vegna eignarnáms á landi Vatnsenda árin 1992, 1998, 2000 og 2007 og var málið þingfest 5. nóvember sama ár.

Þá er einnig rekið fyrir Héraðsdómi Reykjaness mál dánarbús Þorsteins Hjaltested gegn Kópavogsbæ en það mál snýst einnig um ágreining um bætur vegna eignarnáms í Vatnsenda 2007.

Dóminn má lesa á vef héraðsdómstóla.