Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Vonar að flestir komist aftur heim fyrir jól

21.12.2020 - 13:08
Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Vonast er til að flestir íbúar á rýmingarsvæðunum á Seyðisfirði fái að fara heim fyrir jól, sumir jafnvel í dag. Enn er verið að meta aðstæður en yfirlögregluþjónn segir að ástandið hafi skánað mikið eftir að regninu slotaði. 

 

Tilkynningar að vænta um tvöleytið

Viðbragðsaðilar funduðu um stöðuna og framhaldið í morgun. Enn er verið að meta ástand hlíðanna ofan við húsin sem voru rýmt á Seyðisfirði. Hlíðin verður endurmæld, sprungur kortlagðar og yfirlitsmyndir teknar. Á meðan þykir ekki óhætt að aflétta rýmingu sem enn eru í gildi en þörfin fyrir hana er í stöðugri endurskoðun og ekki útilokað að henni verði aflétt að hluta í dag. „Það er til skoðunar og kemur vel til greina en það er ekki komin endanleg niðurstaða. Við stefnum að því að senda út tilkynningu um tvöleytið í dag og þar gætu verið einhver tíðindi í þá áttina,“ segir Kristján Ólafur Guðnason yfirlögregluþjónn.

Í gær var 305 Seyðfirðingum leyft að fara heim en 276 hafa ekki enn fengið að snúa til baka. Hluti þeirra fær hugsanlega að fara aftur heim í dag. 

Fá að vitja húsa sinna

Kristján Ólafur segir að skilyrði í bænum hafi breyst  hratt til batnaðar eftir að ofsaregninu slotaði. Í ljósi þessa geta íbúar á stórum hluta rýmingarsvæðisins fengið fylgd inn á svæðið í dag til að sækja nauðsynjar eða bjarga verðmætum. Þetta á við um íbúa við Múlaveg, Botnahlíð, Bröttuhlíð, Túngötu, Miðtún, Baugsveg, Brekkuveg, Austurveg 22 til 40b, Hafnargötu 2a, Brúarleiru og Lónsleiru. Hús við aðrar götur á rýmingarsvæði eru enn lokuð og ekki hægt að komast í þau að sinni. Íbúar sem vilja vitja húsa sinna eru beðnir um að gefa sig fram við vettvangsstjórn á Seyðisfirði og fá leiðbeiningar. 

Kristján vonar að stór hluti Seyðfirðinga sem nú þurfa að halda sig fjarri heimilum sínum fái að snúa aftur fyrir jól. „Við erum að vona að það verði fleiri og vonandi nokkuð stór hluti þeirra sem enn sæta rýmingu, að þeir komist heim. Það verða ekki allir en mögulega stór hluti.“

Unnið að viðgerðum

RARIK vinnur að því að koma rafmagni á sem víðast og vegna bilunar í hitaveitu er verið að koma fyrir rafmagnsofnum í þeim húsum sem hafa ekki hitaveitu.  

Almannavarnir minna á íbúafund í dag klukkan 16. Hann verður sendur út rafrænt á Facebook-síðu Múlaþings. Íbúar sem eiga heimangengt eru hvattir til að mæta.