Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Veita átta milljörðum næstu fjögur ár í heimahjúkrun

Mynd með færslu
 Mynd: Heilbrigðisráðuneyti
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri staðfestu síðdegis samning um stóraukna heimahjúkrun á höfuðborgarsvæðinu næstu fjögur árin. Samningurinn tekur gildi fyrsta janúar og nemur árlegur kostnaður við hann um tveimur milljörðum króna, segir í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu. 

Markmiðið er að bæta þjónustu við aldraða í heimahúsum, fækka sjúkrahússinnlögnum og vinna gegn útskriftarvanda á bráðamóttöku Landspítalans.  

Með samningnum tekur velferðarsvið Reykjavíkur að sér rekstur heimahjúkrunar í Reykjavík og á Seltjarnarnesi allan sólarhringinn, kvöld og helgar í Mosfellsbæ og næturþjónustu fyrir allt höfuðborgarsvæðið.

Nýi samningurinn byggir að meginstofni á fyrri samningi um heimahjúkrun frá árinu 2016 sem felur í sér að Reykjavíkurborg annast rekstur heimahjúkrunar samhliða félagslegri heimaþjónustu sem myndar þannig eina heild gagnvart notendum þjónustunnar. Í samningnum er lögð áhersla á að efla getu heimahjúkrunar Reykjavíkur til að nýta velferðartækni í auknum mæli, samhliða því að fjölga vitjunum, auka sérhæfingu og veita þverfaglega heilbrigðisþjónustu í meira mæli til fólks í heimahúsum. Samningurinn öðlast gildi 1. janúar.