Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Telja Boeing 737 Max mjög öruggan farkost

21.12.2020 - 04:17
epa08892946 (FILE) - An aerial view of Boeing 737 Max 8 aircraft owned by American Airlines and United Airlines parked at Boeing Field in Seattle, Washington, USA, 21 July 2019 (reissued 19 December 2020). According to US Senate investigators Boeing officials inappropriately coached test pilots during the 737 Max aircraft recertification process.  EPA-EFE/GARY HE   EDITORIAL USE ONLY
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Patrick Ky, forstjóri Flugöryggisstofnunar Evrópu (EASA), segir líklegt að stofnunin meti að öryggi Boeing 737 Max sé tryggt. Mikil áhersla hafi verið lögð á að meta í hörgul þær breytingar sem framleiðandinn hefur gert á vélunum.

Bandarísk og brasilísk flugmálayfirvöld hafa þegar veitt vélunum flugleyfi og nú er búist við að leyfi EASA verði veitt um miðjan janúar. Notkun Max-vélanna var bönnuð í mars árið 2019 eftir tvö flugslys sem urðu alls 346 að bana.

Það fyrra varð í október 2018 þegar þota indónesíska flugfélagsins Lion Air hrapaði í hafið við Indónesíu. Fjórum mánuðum síðar fórst þota Ethiopian Airlines skömmu eftir flugtak frá Addis Ababa. Slysin mátti rekja til galla í hugbúnaði vélanna.

Af hálfu Flugöryggisstofnunar Evrópu voru öll stjórntæki og vélbúnaður skoðuð af kostgæfni. Hver einasta vél á nú að vera búin nýjum hugbúnaði og stjórntækjum í flugstjórnarklef. Ky segir í samtali við BBC að stofnunin sé þess því fullviss að Boeing 737 Max sé afskaplega örugg flugvél.