Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Katrín ræddi við von der Leyen í síma um bóluefnið

21.12.2020 - 11:30
Mynd með færslu
 Mynd: Ursula von der Leyen - Twitter
Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, ræddi við Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra Íslands, í síma í dag. Þær ræddu almennt um stöðu bóluefnisins og bólusetninga gegn kórónuveirunni.

Forsætisráðuneytið óskaði eftir samtali Katrínar og von der Leyen. Samkvæmt upplýsingum úr ráðuneytinu þótti best að leiðtogarnir ræddu beint saman, eftir að misvísandi upplýsingar um sendingu bóluefnisins til Íslands bárust.

Þær Katrín og von der Leyen eiga regluleg samtöl og hafa áður rætt bóluefnasamningana beint. Ísland er í samfloti með Evrópusambandinu í samningum við framleiðendur bóluefnanna og fá þess vegna bóluefni frá sömu framleiðendum.

Von der Leyen fullvissaði Katrínu um að fyrstu sendingar bóluefnis gegn kórónuveirunni til Evrópusambandsins verði jafnframt sendar Íslendingum.

Von der Leyen segir frá símtalinu á Twitter-síðu sinni og birtir mynd af sér í símanum. Lyfjastofnun Evrópu fundar í dag um hvort hægt sé að veita bóluefni Pfizer og BioNTech markaðsleyfi. Framkvæmdastjórn ESB staðfestir svo ákvörðunina einum til tveimur dögum seinna.

Í Twitter-færslu sinni segir von der Leyen að ef leyfi fyrir bóluefninu verður veitt í dag, verður fyrsta sending af efninu einnig tiltæk handa Íslendingum fyrir bólusetningu í Evrópu.

Í frétt á vef heilbrigðisráðuneytisins í dag segir að íslensk stjórnvöld hafi þegar tryggt bóluefni sem dugir fyrir 87 prósent þjóðarinnar. Samningar sem Ísland hefur þegar lokið við Pfizer og Astra Zeneca tryggja 400.000 skammta af bóluefninu. Hver einstaklingur þarf að fá tvo skammta, svo það dugir 200.000 manns.

Þriðji samningurinn er við lyfjafyrirtækið Janssen. Hann verður undirritaður 23. desember og tryggir Íslandi 235.000 skammta fyrir 117.500 manns. Þá verður samningur undirritaður við Moderna þann 31. desember. Umfang þess samnings liggur ekki fyrir að svo stöddu.

Þau bóluefni sem Ísland hefur tryggt sér aðgengi að í gegnum samninga ESB eru sex. Þau má sjá á eftirfarandi töflu frá heilbrigðisráðuneytinu.