Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

„Heppinn að hafa fengið veiruna því ég slapp mjög vel“

21.12.2020 - 10:22
Mynd: Óðinn Svan Óðinsson / RÚV
Jólasveinninn sem staðið hefur vaktina í Jólagarðinum í Eyjafjarðarsveit í 25 ár getur tekið á móti gestum grímulaus eftir að hafa fengið COVID-19 fyrr í vetur. Hann segir það forréttindi að geta brosað framan í börnin sem koma í heimsókn.

25 ár í Jólagarðinum

Heimsókn í Jólagarðinn í Eyjafjarðarsveit hefur verið órjúfanlegur hluti af jólum margra allt frá því að hann opnaði fyrir 25 árum. Jólasveinninn sem staðið hefur vaktina í garðinum frá opnun segir tískuna í jólaskrauti hafa þróast töluvert.

Mikil þróun í jólaskrauti

„Sko þegar við byrjuðum þá erum við að tala um að þetta er gríðarlega sterkt, svona skandinavískt. Og svo smá svona fer þetta í yfir í svona glerkúlur sem eru kökusneiðar svo erum við komnir í hérna með svona piparkökuhús og bolla og hrærivél. Nýjasta í þessu matartengda skrauti er og það eru svona stórar fígúrur sem heilu bakaríin gætu notað sem skreytingu,“ segir Stekkjastaur.

Getur brosað fram í börn án grímu

Faraldurinn hefur haft áhrif á garðinn eins og annað í samfélaginu - en ekki síst jólasveininn sjálfan. „Já ég var innan gæsalappa í dag heppinn að hafa fengið veiruna því ég slapp mjög vel og það gerir mér kleift að ég get brosað fram í börn og fullorðna og það eru gríðarleg forréttindi í dag.“

Var eitthvað í hefðum jólasveinanna eða mataræði sem hjálpaði þér í gegnum þetta?

„Eigum við nokkuð að vera að fara út í það“

Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan Óðinsson - RÚV
Jólaskrautið hefur að sögn Stekkjastaurs þróast mikið