Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Tilfinningaþrungin stund að koma heim til Seyðisfjarðar

Mynd: Hjalti Stefánsson / RÚV
Það var tilfinningaþrungin stund fyrir marga Seyðfirðinga að fá að snúa aftur heim í dag. Margir upplifðu létti í bland við ótta. Sumir fá þó ekki að fara inn á heimili sín og þurfa að gista annars staðar.

 

„Það er náttúrulega æðislegt að vera komin heim en þetta er samt rosalega skrítið allt saman. Voða skrítið að keyra yfir heiðina,“ segir Jóhanna Pálsdóttir. 

„Síðan keyrir maður inn í bæinn og sér þetta. Þetta var svolítið svakalegt finnst mér. Að sjá hérna tóman bæ og björgunarsveitarmenn á ferli með varðhunda, dróna í loftinu og einhvers konar þokuljós, einhvers konar Batmanljós sem gengur fram og til baka á fjallinu. Þetta er svona óraunverulegt ástand,“ segir Kristján Þór Kristjánsson.

„Ég er bara glaður að vera hérna. Ég væri ekki til í að vera heima hjá mér á Austurveginum ef önnur svona skriða myndi koma. Mig langar helst ekki að vera hérna en ef þeir segja að þetta sé góður staður þá hlýt ég að geta treyst þeim,“ segir Marek Ari Baeumer.

Faðir Mareks, Guido Baeumer, er ekki viss um hvort fjölskyldan fái að fara heim fyrir jól. „Það væri náttúrulega mjög flott en ég veit ekki hvernig það lítur út,“ segir Guido. „Það eru náttúrulega allir pakkarnir heima, allir jólapakkarnir og alls konar dót sem væri gaman að vera með, föt og svona,“ segir Marek.

„Mitt hús er ennþá á rýmingarsvæði þannig að ég kom niður eftir og verð hjá pabba mínum næstu daga alla vega. Ríkisstjórnin, þeir verða bara að stíga fram núna. Þeir verða bara að stíga fram núna. Það þarf að verja byggðina hérna. Við sjáum byggðina hérna á bak við okkur, hún er öll í hættu. Ef hún verður ekki varin þá eru kannski fimmtíu hús sem verða ekki íbúðarhæf,“ segir Rúnar Gunnarsson, fulltrúi í heimastjórn Seyðisfjarðar.

„Það er auðvitað ákveðinn léttir að fá að komast heim til sín en það er líka mikil sorg yfir því að vita það að það eru ekki allir sem fá að koma heim. Það er náttúrulega orðið svolítið dimmt þegar við komum sem er ágætt. Kannski vaknar maður bara í sínu húsi á morgun og tekur þetta aðeins inn. Þegar maður er búin að fylgjast með fréttum og svona þá er öðru vísi að koma og finna tilfinninguna fyrir fjöllunum. Það er óttablandin virðing fyrir þeim núna. Það hefur yfirleitt verið mikil aðdáun. Núna er maður ekki alveg viss hverju maður á að treysta,“ segir Margrét Guðjónsdóttir.

Hvernig fannst þér að koma heim?

„Ég var mjög stressuð að koma yfir heiðina og líka að sjá fjallið,“ segir Kamilla Kara Brynjarsdóttir.

„Ég vona bara að sem flestir fái að koma heim fyrir jól og ég vona að sem flestir treysti sér. Auðvitað er það misjafnt. Við erum búin að tala við marga vini sem eru ekki alveg vissir hvenær þeir eru tilbúnir til að koma aftur, En vonandi með hækkandi sól.  Þetta eru náttúrulega tvær nætur í burtu en við getum ekki kvartað. Við fengum að fara heim núna,“ segir Margrét.