Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þrír ráðherrar á leið austur á firði

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Þrír ráðherrar ríkisstjórnarinnar ætla austur á Seyðisfjörð í fyrramálið til að kynna sér aðstæður, ræða við heimamenn og sýna stuðning í verki. Sigurður Ingi Jóhannsson sveitarstjórnarráðherra segir að ríkisstjórnin muni styðja við bakið á Seyðfirðingum. 

„Þetta eru svakalegir atburðir og mikið kraftaverk að öll mannslíf hafa bjargast. En mikið eignatjón og alltof fljótt í sjálfu sér að fara að tala um einhverja fjármuni í því samhengi. Nú þurfa bara sveitastjórn, almannavarnir og eigendur að fara yfir það hvernig hlutirnir eru og við hjá ríkisstjórninni munum síðan bakka það upp. Það var þarf auðvitað að byggja upp innviðina aftur á Seyðisfirði og ríkisstjórnin um styðja við þá uppbyggingu,“ segir Sigurður Ingi.

Sveitarstjóri Múlaþings sagði í fréttum RÚV í gær að brýnt væri að verja fjármunum í ofanflóðavarnir. 

„Já, ég tek undir með það. Við höfum á síðasta ári sett umtalsverðan meiri kraft og hraðað uppbyggingu á ofanflóðavörnum en núna bætist það við að það þarf auðvitað að horfa til aurflóða ekki síður heldur en snjóflóða,“ segir Sigurður Ingi. 

Verður fjármagn tryggt í það?

„Það er umtalsvert fjármagn til og ég held að það verði ekki vandamál að fjármagna þetta,“ segir Sigurður Ingi.

Og ríkisstjórnin ætlar að styðja fjárhagslega við bakið á Múlaþingi og Seyðfirðingum varðandi uppbyggingu innviða?

„Já, við setjum, þegar svona atburðir gerast, þá setjum við okkar auga á þetta og lofum stuðningi. Ráðuneytistjórar nokkurra ráðuneyta safna saman upplýsingum frá þeim aðilum sem að best þekkja og síðan höfum við bara stutt þau samfélög sem fyrir einhverjum sambærilegum atburðum hafa orðið,“ segir Sigurður Ingi.

Fulltrúar ríkisstjórnarinnar ætla að fara austur á firði í fyrramálið, forsætisráðherra, sveitarstjórnarráðherra og líklega dómsmálaráðherra sem er jafnframt ráðherra almannavarna.