Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir orð ekki geta lýst eyðileggingunni á Seyðisfirði

20.12.2020 - 15:49
Mynd með færslu
Viðbragðsaðilar ræða saman á Seyðisfirði í dag Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Davíð Kristinsson, varaformaður björgunarsveitarinnar Ísólfs, segir orð ekki geta lýst eyðileggingunni á Seyðisfirði eftir skriðuna á föstudag. „Þetta er eitthvað sem maður þarf að sjá. Mikið af okkar flotta bæ er farið.“

Búið er að aflétta hluta af rýmingu á Seyðisfirði og færa bæinn af neyðarstigi niður á hættustig. Einhverjir íbúar fá því að snúa aftur heim í dag. Áfram er þó talin hætta á skriðum á ákveðnum svæðum.

Ljóst er að eignatjón er mikið eftir hamfarirnar. Tækniminjasafnið er nánast farið og sögufræg hús mikið skemmd. 

Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir, fréttamaður, ræddi við Davíð Kristinsson, varaformann björgunarsveitarinnar Ísólfs, í dag en hún er á Seyðisfirði að fylgjast með aðgerðum. Aðalverkefnið síðustu daga hjá björgunarsveitarmönnum var að koma á rafmagni aftur á mikilvægustu staðina og það hefur tekist.

Davíð segir orð ekki geta lýst þeirri eyðileggingu sem blasir við eftir skriðuna á föstudag. „Mikið af okkar fallega bæ er farið. En það er nú þannig með alla staði að þeir blómstra aftur. Það kemur gras á skriðuna, hún verður græn og við höldum áfram.  Verkefnið er stór en við ætlum að leysa það saman. Þetta tekur langan tíma og verður mikið verk en við klárum þetta.“

Davíð var staddur á Austurvegi þegar skriðan féll á föstudag. Og honum varð hugsað til textabrotsins „Og fjallið það öskrar,“ sem er úr lagi Bubba Morthens, Með vindinum kemur kvíðinn. „Þegar maður hlustar á lagið og skilur textann þá var það sú tilfinning sem ég fékk - fjallið kom öskrandi niður.“

Eftir það varð sýnin einföld hjá Davíð því hann kom auga á félaga sína í björgunarsveitarbíl og áttaði sig á að bíllinn myndi lenda í skriðunni. „Ég stekk af stað, næ að komast að bílnum, opna hurðina og koma þeim út. Við syntum út úr skriðunni og rýmdum þau hús sem eftir voru. Það gekk ótrúlega vel, það var mikið af góðu fólki sem var tilbúið að hlusta og hlýða. Það er alltaf gaman þegar fólk hlýðir því sem maður segir.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV