Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Nornin rekur þá á hol sem taka ekki til fyrir jólin

Mynd: Samsett mynd / Pixabay/RÚV

Nornin rekur þá á hol sem taka ekki til fyrir jólin

20.12.2020 - 11:22

Höfundar

Einhverjir óttast sennilega að slysast til óþekktar í aðdraganda jólanna og í staðinn fyrir að í skóm í gluggum bíði þeirra að morgni ljúffeng mandarína, spil eða dót, leynist kartafla. Þeir hinir sömu geta þó prísað sig sæla að það sé eina refsing jólasveinanna því ekki eru allar goðsögulegar jólaverur jafn miskunnsamar.

Í þriðja og síðasta þætti Kósíheita í Hveradölum sem sýndur var á laugardagskvöld, settist Vera Illugadóttir að venju niður við kertaljós og sagði hryllilega jólasögu. Í þetta skipti minnti hún á mikilvægi þess að halda híbýlum hreinum í kringum jólaleytið til að forðast illræmda norn sem þjóðsögur herma að búi í fjöllunum.

Langt og hvasst nef úr málmi og hnífur undir klæðum

Nornin er kölluð Perchta eða Bertha. Sumir segja reyndar að hún sé íðilfögur gyðja en í flestum frásögnum af henni er hún það alls ekki. Henni er lýst sem útslitinni ófrýnilegri kerlingu með langt og hvasst nef úr málmi, ægilegar glyrnur og stundum horn úr enninu. Hún klæðist tötrum og gengur við staf en undir klæðunum er talið nokkuð víst að hún feli stóran hníf.

Flýgur um með óskírðum ungabörnum

Það má ýmist sjá hana á gangi við staf sinn um fjöllin eða hún flýgur um í flokki ungbarna sem ekki náði að skíra fyrir andlátið. Hún lætur sér ekki nægja að vera á ferðinni í kringum jól því eftir hátíðina fer hún gjarnan í eftirlitsferðir með ungbörnunum.

Perchtu er sérlega umhugað að fólk, bæði börn og fullorðnir, hagi sér skikkanlega og haldi heimilum sínum hreinum. Hún fylgist líka með því að spunakonur bæjanna spinni áreiðanlega nóg og guð hjálpi þeim sem ekki hefur unnið dagsverkið eða ekki tekið til fyrir jólin.

Fjarlægir innyflin og fyllir skrokkinn af stráum

Ef svo fer að Perchta smýgur inn í kot þeirra þegar það fer að kvölda gæti hún átt það til að kveikja í öllu saman, spunarokknum og draslinu í eldhúsinu. Og stundum segir sagan að Perchta læðist inn í svefnherbergi þeirra sem ekki hafa staðið sig í húsverkunum, dragi fram stóra hnífinn undan kuflinum og skeri fólk á hol. Svo tekur hún úr þeim óþekku innyflin og treður í staðinn inn stráum og steinvölum.

Það er þó ein leið til að koma sér í mjúkinn hjá norninni, allavega reyna það, og það ku vera að skilja eftir handa henni rjúkandi skál af hafragraut fyrir svefninn. Aðeins hann gæti linað afstöðu hennar til sinnuleysis fólks í húsverkunum.

Hér er hægt að horfa á alla þætti Kósíheita í Hveradölum í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Tónlist

Jólin, jólin, jólin koma brátt

Tónlist

Jólakúlu-jólakveðjur Baggalúts