Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Komu rafmagni á mikilvæga staði

Mynd: Hjalti Stefánsson / RÚV
Björgunarfólk hefur komið rafmagni á mikilvæga staði á Seyðisfirði í dag. Björgunarsveitarmaður var stutt frá stóru skriðunni á föstudag og horfði á félaga sína í bíl berast burt með flóðinu.

Björgunarfólk var við störf á Seyðisfirði í dag og var lögð áhersla á að koma rafmagni á nokkra mikilvæga staði í bænum.

„Núna í morgun fórum við inn á lokaða svæðið til þess að koma rafmagni á björgunarsveitarhúsið vegna þess að þar er Tetra-kerfið sett upp sem er okkar samskiptalífæð og mjög mikilvægt að hafa það í gangi. Þannig að við fórum í fyrsta skiptið inn á lokaða svæðið. Þetta er bara gríðarleg eyðilegging og mikið af okkar fallega bæ er farið,“ segir Davíð Kristinsson, varaformaður björgunarsveitarinnar Ísólfs.

Varðskipið Týr kom í gærkvöld austur og ferjaði þá burtu fólk sem hafði orðið innlyksa. Þá hafa menn í dag skoðað aðstæður.

Hvar varst þú þegar skriðan féll?

„Ég var staddur á Austurvegi 53 sem er 20 metra frá skriðu ca. Við vorum slökkviliðsstarfi þar, í vatnsdælingu. Þannig að hún fellur bara þarna við hliðina á mér. Þarna sé ég björgunarsveitarbíl sem er staðsettur á lokunarpósti rétt fyrir neðan flóð og ég geri mér grein fyrir því að hann muni lenda inni í flóðinu. Og stekk af stað og næ að komast þarna að bílnum, næ að opna hurð og koma mannskap út úr bílnum. Það var eitt af augnablikum sem maður var ánægður að fá að vera með í,“ segir Davíð.