Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kanna hvort hluti íbúa geti snúið aftur heim í dag

20.12.2020 - 12:18
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Verið er að skoða hvort hægt sé að aflétta rýmingu á hluta Seyðisfjarðar og leyfa hluta íbúa bæjarins að snúa aftur heim. Þetta segir Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum. Hann segir ekki útilokað að frekari skriður kunni að falla. Veðurstofan sé með mælitæki á svæðinu, fylgist vel með og það hjálpi til við að meta stöðuna.

Enn er í gildi neyðarstig á Seyðisfirði og íbúar hafa ekki fengið að fara heim síðan á föstudag þegar stór skriða féll og skemmdi meira en tíu hús. Eignatjónið er talið vera um einn milljarður króna. Þá er hættustig á Eskifirði og þar hefur rýmingu á hluta bæjarins ekki verið aflétt.

Rögnvaldur segir að vonast sé til að RARIK geti farið inn á lokað svæði á jaðrinum til að skoða ástandið og reyna að hleypa rafmagni á bæinn. „Þetta er gert samkvæmt ítrustu kröfum og fyllsta öryggis verður gætt.“

Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Austurlandi, sagði í hádegisfréttum RÚV, að vonast væri til að hægt yrði að hleypa hluta íbúa heim til sín í dag.  Málið ætti að skýrast upp úr þrjú þótt það geti brugðið til beggja vona. Hversu stór hluti íbúa fái að snúa aftur í dag sé óljóst.

Hann segir stöðuna á Eskifirði allt aðra. Þar hafi sést sprungur í Oddsskarðsvegi og í ljósi þess sem hafði verið að gerast fyrir utan bæinn hafi verið ákveðið að grípa til rýminga. Mögulega verður hægt að aflétta rýmingu að fullu eða hluta í dag. „Það ætti að skýrast milli fimm og sex í dag.“

Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir, fréttamaður, er við lokunarpóstinn á Seyðisfirði og hefur rætt við íbúa Seyðisfjarðar í dag.  Þeir yfirgáfu bæinn á föstudag og margir eru enn í sömu fötunum. Þá eru ýmsir sem hafa áhyggjur af dýrunum sínum, meðal annars kona sem er með hænur. Hún sagði fréttastofu að hún hefði þó gefið þeim vel áður en hún fór.

Fram kemur í tilkyningu frá Almannavörnum að verið sé að ákveða hvernig sé best að skipuleggja heimför íbúa á örugg svæði. „Stefnt er að því að kynna það skipulag formlega milli klukkan 14 og 15 í dag.“

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV