Börnin sem tekin voru frá foreldrum í tilraunaskyni

Mynd: Helene Thiesen / cc

Börnin sem tekin voru frá foreldrum í tilraunaskyni

20.12.2020 - 09:23

Höfundar

„Ég hef heyrt Helene segja þessa sögu og það er átakanlegt. Hún kemst enn við,“ segir Kristjana Guðmundsdóttir Motzfeld um Helene Thiesen sem var barnung tekin frá grænlenskum foreldrum sínum og send til Danmerkur. Þar áttu börnin að tileinka sér, og síðar grænlenska samfélaginu, danska siði og þekkingu í tilraun sem fór illa.

Dönsk stjórnvöld báðu nýverið 22 grænlensk börn afsökunar. Í dag eru þau ekki börn lengur en það voru þau árið 1951 þegar þau voru tekin frá sínum nánustu og flutt til Danmerkur. Gjörningurinn átti að gefa börnunum tækifæri til betra lífs en þau ættu heima á Grænlandi en hafði skelfilegar afleiðingar.

Í yfirlýsingu frá danska forsætisráðuneytinu segist Mette Frederiksen hafa fylgst með því árum saman og kveðst slegin yfir þeim mannlega harmleik sem málið olli. Hún segir einnig að það sé ekki hægt að breyta því sem þegar hafi gerst en það sé þó hægt að axla ábyrgð og biðjast fyrirgefningar. Ekkert tillit hafi verið tekið til barnanna, þau rifin úr sínu eðlilega umhverfi, tengsl þeirra við fjölskyldur og aðra ættingja rofin, sömuleiðis ættlandið Grænland og sögu þess. 

Stjórnvöld í Danmörku og á Grænlandi hafa gefið út skýrslu um sögur barnanna og afleiðingarnar sem flutningarnir höfðu á líf þeirra. Kristjana Guðmundsdóttir Motzfeld þekkir grænlenska menningu betur en flestir því hún var búsett þar í landi í 25 ár og hún ræddi atburðina við Höllu Harðardóttur í Samfélaginu á Rás 1.

Hjálparsamtök koma til aðstoðar

Eftir lok seinni heimsstyrjaldar bjuggu flestir Grænlendingar í torfhúsum samkvæmt Kristjönu sem fullyrðir að þau hafi ekki verið mjög skjólgóð. Berklar og fleiri smitsjúkdómar greindust víða um landið og dönskukunnáttan var lítil. Hjálparsamtök, Barnaheill og Rauði krossinn, sýndu áhuga á að koma grænlensku samfélagi til aðstoðar við að færa það nær nútímanum. „Það er sendur danskur læknir til Grænlands og þá kemur þessi hugmynd upp,“ segir Kristjana.

Hugmyndin var að reisa heimili fyrir nokkur sérvalin grænlensk börn og senda þau með skipi til Danmerkur. „Þau voru fyrst í sumarbúðum á vegum Barnaheilla en svo áttu þau að vera hjá danskri fjölskyldu yfir veturinn,“ segir hún.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Kristjana segir Grænlendinga fegna að fá loksins afsökunarbeiðni.

Sex börn sneru aldrei heim

Foreldrar eða forráðamenn barnanna fengu mismunandi upplýsingar um hvert ætti að fara með börnin. Þau dvöldu í Danmörku í eitt og hálft ár en eftir þann tíma héldu aðeins sextán þeirra til baka því fósturforeldrarnir óskuðu eftir að fá að ættleiða hin sex sem urðu eftir í Danmörku. „Koman til Nuuk var átakanleg,“ segir Kristjana.

„Mamma hennar skilur ekki hvað hún er að segja“

Flest barnanna áttu erfitt með að fóta sig í lífinu eftir þessa reynslu og mörg glímdu við geðræna kvilla og alkóhólisma síðar. Sú sem hefur mögulega spjarað sig best af þeim samkvæmt Kristjönu er Helene Thiesen sem hefur margoft rifjað atburðina upp þó henni þyki það enn erfitt.

Þegar foreldrar hennar voru beðnir að senda barnið frá sér til Danmerkur til að fá þar góða menntun og læra dönsku sagði móðir hennar nei. Hún neitaði í tvígang en ekki var gefist upp svo hún lét loks til leiðast. Helena var ein þeirra sem kom til baka.

„Þegar Helena sér móður sína á hafnarbakkanum í Nuuk hleypur hún til hennar óðamála og segir hvað hún hefur upplifað. Það rennur upp fyrir henni að mamma hennar skilur ekkert hvað hún er að segja,“ segir Kristjana. „Ég hef heyrt Helenu segja þessa sögu og það er átakanlegt. Hún kemst enn við.“

Ekkert annað en tilraunastarfsemi

Hugmyndin var líklegast að börnin kæmu til baka til Grænlands með nýja þekkingu og yrðu einhvers konar bjargvættir fyrir samfélagið. „Þetta er ekkert annað en tilraunastarfsemi sem verður að segjast eins og er - mistókst. Þeir vildu geta þetta á sem stystum tíma og að það kostaði lítið en það hafði alveg hörmulegar afleiðingar.“

Halla Harðardóttir ræddi við Kristjönu í Samfélaginu á RÚV.

Tengdar fréttir

Norður Ameríka

Báðu grænlensku börnin afsökunar

Erlent

Íbúar Nuuk kjósa um tilvist styttu af nýlenduherra

Menningarefni

Rax tilnefndur fyrir sleðahundamyndir