Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Átakafundur um niðurstöður forsetakosninganna

epa08890827 The White House is seen at dusk in Washington, DC, USA, 17 December 2020.  EPA-EFE/KEVIN DIETSCH / POOL
 Mynd: EPA-EFE - UPI POOL
Átakafundur var haldinn á forsetaskrifstofu Hvíta hússins á föstudag. Fundarefnið var forsetakosningarnar í nóvember og hvernig mætti mögulega snúa niðurstöðum þeirra. Lögfræðingurinn Sidney Powell, sem áður tilheyrði lögfræðiteymi Donalds Trump, og skjólstæðingur hennar Michael Flynn fyrrverandi öryggisráðgjafi sátu fundinn auk Bandaríkjaforseta og aðstoðarmanna hans.

Heimildarmenn CNN fréttastofunnar segja hávaðarifrildi hafa brotist út varðandi hugmyndir Flynns og Powell um hvernig mætti snúa við niðurstöðunum.

Fyrr í vikunni stakk Flynn upp á að forsetinn gripi til herlaga í þeim tilgangi og þá hugmynd mun hafa borið á góma að nýju á fundinum. Hver viðbrögð Trumps voru liggur ekki fyrir en aðstoðarmenn hans eru sagðir hafa hafnað hugmyndinni algerlega.

Sömuleiðis var þeirri hugmynd hafnað að Powell tæki að sér að rannsaka gaumgæfilega hvort svik hafi verið í tafli með kosningavélarnar. Jafnframt mun hún hafa lagt til að forsetinn gæfi út tilskipun til að leyfa opinbera rannsókn á vélunum.

Að sögn heimildarmanna CNN hitnaði enn frekar í kolunum þegar Powell og Flynn ásökuðu aðstoðarmenn um að hafa yfirgefið málstað forsetans.

Skömmu eftir fundinn barst minnisblað frá lögfræðingateymi framboðs Trumps þar sem stuðningsmenn hans voru beðnir að varðveita vandlega öll gögn varðandi kosningavélarnar og Powell.

Í minnisblaðinu er vísað í bréf þar sem Dominion, fyrirtækið sem framleiðir kosningavélarnar, krefst þess að Powell dragi ásakanir sínar til baka.