Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Úrkomumet slegin á Seyðisfirði

19.12.2020 - 16:20
Mynd með færslu
 Mynd: Veður.is/Páll Thamrong Snorras - RÚV
Úrkomumet var slegið á Seyðisfirði síðustu daga. Úrkoma síðustu fimm daga er 70% af allri rigningu sem að meðaltali fellur í Reykjavík á heilu ári. Ofanflóðasérfræðingur þekkir engar varnir sem hefðu bjargað byggðinni frá aurskriðunum sem féllu.

 

Seyðisfjörður er það sveitarfélag á Íslandi sem mesta hættan er á aurskriðum. Hættan er fjölþætt. Það er hætta á skriðuföllum hátt ofan úr fjöllunum, útúr giljum á mörgum stöðum og úr botnum neðarlega í fjallshlíðunum. Stóra skriðan sem féll í gær er enn annars eðlis.

Tómas Jóhannesson, ofanflóðasérfræðingur á Veðurstofu Íslands segir að skriðan sem féll í gær hafi um margt komið á óvart.

„Við áttum í raun ekki von á svona stórri skriðu akkurat á þessum stað. Miklu frekar í farvegi Búðarár sem er þarna skammt innanvið og er þekktur skriðustaður. Þannig að við erum að læra af þessu. Þetta brýnir okkur til þess að grípa til aðgerða til þess að bæta öryggið á þessu svæði og undirbúningur þess er í gangi á vegum sveitarfélagsins og ofanflóðasjóðs. Þetta sýnir okkur að það er ekki vanþörf á því.

Félagarnir áttu fótum fjör að launa

„Þetta var mjög óvænt að fá hringingu og upplýsingar um þetta og félagar okkar á Seyðisfirði áttu fótum sínum fjör að launa og voru bara á skriðusvæðinu með björgunarsveitarmönnum og ég fékk strax og skriðan féll fréttir af því hversu naumlega menn sluppu. Þetta er með dramatískustu augnablikum sem ég ef upplifað í þessu starfi.“

Hefðu einhverjar varnir bjargað byggðinni?

„Ég geri ekki ráð fyrir að neinar varnaraðgerðir sem beitt er til að draga úr hættu á skriðuföllum í öðrum löndum eins og Ölpunum og víðar hefðu komið að gagni þarna þetta eri brött setlög tiltölulega lágt í hlíðinni og það er erfitt að koma við neinum vörnum þar.“

Tómas segir atburðaráð síðustu daga gefa tilefni til endurmats á mörgum hlutum. 

„Það eru staðir á þessu svæði þar sem eru fjölmennir vinnustaðir undir bökkum þar sem gæti skapast hætta og menn hafa verið með viðbúnað og vita af sprungum þannig að þessi skriða kallar á aukna aðgæslu og umhugsun um framtíðarskipulagsáform að sjálfsögðu.“

Mesta úrkoma frá því mælingar hófust

Síðustu 10 daga hefur ringt 733 mm á Seyðisfirði en áköfust hefur rigningin verið síðustu fimm daga. Kristín Björg Ólafsdóttir er sérfræðingur á sviði veðurfarsrannsókna á Veðurstofu Íslands.

„Síðustu 10 daga hefur rignt 733 mm en áköfust hefur rigningin verið síðustu 5 daga frá 14.-18. desember en þá hefur hún mælst 570 mm sem er mesta 5 daga úrkoma sem mælst þar og líka bara yfir allt landið, á Íslandi. Það hefur aldrei verið svona áköf úrkoma á fimm dögum.“

Til samanburðar er rignir að meðaltali 860 mm í Reykjavík á heilu ári.

„Það er bara búin að vera ríkjandi norðaustanátt þarna síðustu daga og það veldur úrkomu á þessu svæði. Það er að stytta upp og það lítur betur út fyrir næstu daga. Það hafa verið úrkomumælingar í Seyðisfirði frá 1935 og það hafa komið svona stórir úrkomuatburðir en þetta er það mesta á svona skömmum tíma.“