Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Stjórnvöld verða sífellt valdameiri í Ungverjalandi

19.12.2020 - 07:35
epa06656115 Hungarian Prime Minister and Chairman of Fidesz Party Viktor Orban (R) and Deputy Prime Minister and Chairman of the Christian Democratic Party Zsolt Semjen sing as they celebrate the win of Fidesz and the Christian Democrats at the election
Viktor Orban fagnar sigri í þingkosningunum á sunnudag. Mynd: EPA-EFE - MTI
Það þótti heldur neyðarlegt þegar ungverskur Evrópuþingmaður þurfti að segja af sér eftir að greint var frá því að hann hafi brotið sóttvarnarreglur með því að sækja kynlífspartý með 20 öðrum karlmönnum í Brüssel - maður sem talinn er höfundur stjórnarskrár sem takmarkar réttindi hinseginfólks. Þetta mál er hins vegar ein af birtingarmyndum slæmrar lýðræðisþróunar í Ungverjalandi. Ríkisstjórnin hefur tekið til sín sífellt meiri völd og stjórnar nú meðal annars fjölmiðlum og dómskerfi.

Föstudagskvöldið 27. nóvember síðastliðinn fékk lögreglan í Brüssel tilkynningu um mikinn hávaða úr íbúð við götuna Rue de Pier í hjarta borgarinnar. Og umkvartanirnar voru ekki aðeins hávaðinn heldur að þarna væri verið að brjóta sóttvarnarreglur, en þá voru 10 manna samkomutakmörk í gildi í borginni. Hávaðinn kom úr rými fyrir ofan kaffihús, sem hinsegin fólk sækir mikið.

Þegar lögreglumennirnir komu á staðinn voru þar, samkvæmt belgískum fjölmiðlum, um 20 karlmenn, og sumir þeirra voru naktir. Gestgjafinn lýsti samkomunni svona: „Við ræddum saman og drukkum saman, rétt eins og maður gerir á kaffihúsi. Munurinn var að við stunduðum líka kynlíf á meðan. Ég sé ekki hvað er að þessu.“

Meðal þeirra sem voru á staðnum var ungverski Evrópuþingmaðurinn Jozsef Szajer en samkvæmt hans gjörðum heima fyrir hefði hann átt að hafa ýmislegt annað við þessa samkomu að athuga en brot á sóttvarnarreglum. Og hann var ekki eini diplómatinn. Þegar lögreglan krafði alla á staðnum um skilríki - nokkuð sem var erfitt fyrir suma sem voru ekki einu sinni í nærbuxum - sýndu tveir þeirra diplómatapassa. Szajer ákvað hins vegar að reyna að flýja frá lögreglu - fór út um gluggann á íbúðinni, sem var á efri hæð, og klifraði niður þakrennurör. 

Vegfarandi lét hins vegar lögreglu vita og hann var handsamaður, alblóðugur á höndunum. Hann gat ekki framvísað neinum skilríkjum og í bakpoka hans fundust fíkniefni, þar á meðal e-tafla. Honum var fylgt á hótel sitt þar sem hann geymdi diplómatapassann sinn, og framvísaði honum. Þannig komst hann hjá handtöku. Lögreglan hefur síðan þá rannsakað Szajer vegna brota á bæði sóttvarnalögum og fíkniefnalögum.

Jozsef Szajer, fyrrverandi Evrópuþingmaður fyrir Ungverjaland.
 Mynd: AP
Joszef Szajer.

Tveimur dögum eftir þetta sagði Szajer af sér þingmennsku á Evrópuþinginu. Þar sem umrætt atvik var þá ekki komið á allra vitorð kom ákvörðunin á óvart en hann bar fyrir sig mikið álag. Þegar sagt var frá samkomunni í fjölmiðlum 1. desember sendi Szajer frá sér yfirlýsingu þar sem hann viðurkenndi að hafa verið á staðnum, án þess að fara nánar út í atburðarásina. Hann baðst afsökunar á að hafa brotið reglur þingsins og sagðist myndu taka afleiðingunum af því en neitaði að hafa neytt fíkniefna - sagði að einhver hefði komið þeim fyrir í bakpoka hans. Flokkur hans, Fidesz-flokkurinn, hélt daginn eftir neyðarfund um málið í forsætisráðuneytinu.

Hér sést fréttamaður frá sjónvarpsstöðinni Telex, einum af fáum gagnrýnum fjölmiðlum sem eru eftir í Ungverjalandi - komum að fjölmiðlaumhverfinu betur á eftir - spyrja Zsolt Semjén varaforsætisráðherra hvað honum finnst um málið. Hann svarar heldur hranalega: „Af hverju ætti ég að hafa skoðun á því?“ Eftir þetta fékk lögreglan skipun um að girða innganginn af svo ráðherrar kæmust að í friði fyrir fjölmiðlum. Fréttamaðurinn gerði athugasemd við þetta og benti á að enginn hafi áður gert athugasemd við að þeir stæðu fyrir framan innganginn. Svar lögreglunnar var aðeins að þetta væri skipun.

Það eina sem fékkst upp úr ráðherrunum þarna var að Jozsef Szajer hefði gert rétt með að segja af sér Evrópuþingmennsku. En eftir neyðarfundinn varð hann að gera meira - segja af sér þingmennsku og hætta í Fidesz-flokknum, sem hann tók sjálfur þátt í að stofna árið 1988.

Skerti réttindi hinsegin fólks

Þó að Szajer hafi sagt í yfirlýsingunni að yfirsjón hans væri af persónulegum toga og endurspegli ekki pólitískt samfélag heimalandsins er þetta mál neyðarlegt fyrir Fidesz-flokkinn hans, sem hefur verið við völd í Ungverjalandi frá árinu 2010. Flokkurinn hefur undanfarin ár hert valdatökin á ýmsan hátt. En meðal þeirra sem hafa þurft að búa við takmörkuð réttindi er hinsegin fólk. Fyrir tæpum áratug var samþykkt ný stjórnarskrá þar sem hjónabandið var skilgreint sem sáttmáli karls og konu. Sú stjórnarskrá var að mestu samin af Jozsef Szajer.

Þá eru aðeins nokkrir daga síðan lög voru sett sem banna hinsegin fólki að ættleiða börn. Og í maí var trans fólki bannað að skrá kyn sitt með öðrum hætti en fram kæmi á fæðingarvottorðinu. Stjórnvöld undir forystu Victors Orban forsætisráðherra hafa í raun verið að koma inn þeirri skilgreiningu á fjölskyldu að höfuð þeirra sé karl og kona á meðan almennt hefur það verið þróunin að víkka skilgreininguna á fjölskyldu.

Og eins og þetta sé ekki nóg er Szajer harðgiftur. Eiginkona hans er einn virtasti lögfræðingur landsins og veitti meðal annars stjórnarskrárdómstól landsins forstöðu um skeið.

Þegar allt þetta er haft í huga þarf kannski ekki að koma á óvart að Viktor Orban, leiðtogi flokksins og forsætisráðherra landsins, hafi sagt ískalt að svona athafnir tilheyrðu ekki þeim gildum sem þessi pólitíska fjölskylda viðhefði. Þó að framlag hans til þróunar Fidesz-flokksins yrði ekki gleymt væru gerðir hans óviðeigandi og óverjanlegar.

Þegar gestgjafinn í teitinu góða talaði um það sem gerðist gagnrýndi hann framferði lögreglunnar, og spurði meðal annars hvernig þeir hefðu átt að sýna skilríki þegar ekki var spjör á kroppnum. Tekið skal fram að gagnrýni á samkomuna hefur ekkert beinst að kynhneigð þeirra sem þar voru viðstaddir, heldur aðeins broti þeirra á sóttvarnareglum. Yfirvöld í Ungverjalandi hefðu, miðað við upptalninguna þarna á undan, gefið lítið fyrir gagnrýni á þessa framkomu lögreglunnar.

Szabolcs Paniy, rannsóknarblaðamaður í Ungverjalandi.
 Mynd: www.HautePhotoVideo.com - European Press Prize
Szabolcs Panyi, rannsóknarblaðamaður hjá Direkt36.hu

Szabolcs Panyi, rannsóknarblaðamaður hjá Direkt36, sem eru félagasamtök ungverskra rannsóknarblaðamanna sem starfa ekki í hagnaðarskyni, hefur fjallað mikið um ungversk stjórnmál og spillingu innan þeirra. „Mál Jozsefs Szajer lýsir gríðarlegri hræsni, að hann hagi lífi sínu með þeim hætti að taka þátt í kynlífsathöfnum í Brüssel á meðan hann leggur sitt af mörkum til að takmarka réttindi hinsegin fólks,“ segir Szabolcs.

Hann segir að kynhneigð Szajers hafi í raun verið opinbert leyndarmál í Ungverjalandi, sem auki hræsnina enn frekar. „Þau létu eins og þeim væri mjög brugðið að það væri nú að koma í ljós þrjátíu árum seinna að Joszef Szajer væri samkynhneigður. Og þetta hefur engu breytt um þeirra stefnu. Í þessari viku var samþykkt stjórnarskrárbreyting sem bannar hinsegin fólki að ættleiða börn. Þannig að þó að þetta hneyksli hafi átt sér stað aðeins fyrir nokkrum vikum er haldið fast í þessa stefnu, og Jozsef Szajer er horfinn af sjónarsviðinu.“

Nýttu brostnar vonir um hagsæld

Til að leita orsakanna fyrir þessari staðfestu er rétt að stikla á stóru í sögu flokksins. Fidesz-flokkur Viktors Orban núverandi forsætisráðherra var stofnaður árið 1988 og hinn umtalaði Jozsef Szajer stofnaði flokkinn með honum. Eiríkur Bergmann Einarsson stjórnmálafræðingur segir að á þeim árum hafi væntingar vaknað í austantjaldslöndunum um efnahagslega hagsæld á borð við þá sem Vesturlönd nytu.

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Eiríkur Bergmann Einarsson.

„Þegar þær væntingar fara að bresta þá fara mörg stjórnmálaöfl í þessum ríkjum, sérstaklega Rússlandi, en líka löndum eins og Ungverjalandi og Póllandi, að fikra sig frá hinu frjálslynda evrópska lýðræði og í áttina að valdboðssinnaðri afstöðu. Að sumu leyti er þetta afturhvarf til þeirra alræðisstjórna sem höfðu verið þarna víða en á öðrum forsendum. Fidesz-flokkurinn hafði verið í stafni þessara breytinga, að færa Ungverjaland í átt að Vestur-Evrópsku frjálslyndu lýðræði.“

Andstæð sjónarmið barin niður

Flokkurinn hafi svo hrökklast frá völdum um miðjan fyrsta áratug þessarar aldar. „Og síðan gerist það í aðdraganda forsetakosninganna 2010 að Viktor Orban snýr alveg við blaðinu og tekur upp miklu harðari og þjóðernissinnaðri afstöðu. Þegar efnahagsumbætur láta á sér standa er oft nærtækast að grípa til þjóðernishyggju og búa til utanaðkomandi óvini til að þjappa þjóðinni saman gegn þessum óvini. Þetta er bara klassík pólitík sem við höfum oft séð.“

Eiríkur segir Fidesz-flokkinn hafa notað þessa stefnu óspart til að halda völdum. „Hin umburðarlindu frjálslyndu sjónarmið eru einfaldlega barin niður. Valdboðshyggjan er þannig að hún krefst samstöðu allra og þeir sem tala fyrir öðrum valkosti en valdboðsstjórnin kýs eru útmálaðir sem svikarar, þjóðnýtingar o.s.frv. og eru einfaldlega barðir niður.“

epa08315631 Hungarian Prime Minister Viktor Orban delivers his speech about the current state of the coronavirus during a plenary session in the House of Parliament in Budapest, Hungary, 23 March 2020.  EPA-EFE/Tamas Kovacs HUNGARY OUT
Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands. Mynd: EPA-EFE - MTI
Viktor Orban á ungverska þinginu.

Og með því eru völd stjórnvalda aukin, ekki aðeins með stjórnarskrárbreytingum heldur líka með því að ná beinum tökum á háskólum og dómskerfinu. Szabolcs Paniy segir ungverska þingið í raun ekki sjálfstætt gagnvart stjórnvöldum. „Þingmennirnir ýta bara á þá takka sem þeim er sagt að ýta á og hafa í raun bara þann formlega tilgang að stimpla ákvarðanir Viktors Orban.“

Þeir hafa líka gert þetta í geira sem Szabolcs þekkir vel - fjölmiðlum. Hann starfaði áður sem blaðamaður á Index, sjálfstæða miðlinum sem var lagður niður eftir ritstjóraskipti þar í sumar. Blaðamenn þar töldu það aðför að sjálfstæði sínu og hættu. Szabolcs hafði reyndar hætt störfum þar tveimur árum áður.

Ríkisfjölmiðlar breytast í áróðursvél

„Um leið og Viktor Orban komst til valda var ríkisfjölmiðlunum breytt í áróðursvél í anda gömlu Sovétríkjanna, sem ríkið stjórnaði að vild. Síðan voru sett ný fjölmiðlalög þar sem sérstök stofnun var sett á laggirnar sem úthlutar útsendingarleyfum fyrir útvarp og sjónvarp. Ríkisstjórnin setur sitt fólk þar inn. Þá höfum við síðustu sjö til átta árin séð að sjálfstæðir fjölmiðlar hafa runnið inn í samsteypu sem stjórnvöld ráða.“

Szabolcs segir að áður en fjölmiðlarnir fóru í þessa samsteypu hafi fjárfestar hliðhollir stjórnvöldum keypt miðlana, með hagstæðum lánum frá þessum sömu stjórnvöldum. Þessir fjölmiðlar voru margir hverjir þegar í erfiðleikum vegna breytts rekstrarumhverfis þar sem Facebook og Google hafa tekið til sín mikið af auglýsingatekjum. Þessir fjárfestar gáfu svo stjórnvöldum fjölmiðlana til baka.

Szabolcs segir að nú séu aðeins örfáir sjálfstæðir vefmiðlar starfandi og ein sjálfstæð sjónvarpsstöð - Telex sem við sáum myndskeið frá hér að ofan. „Vandamál þeirra er hins vegar að ríkið er stærsti auglýsandinn - stjórnvöld. Ríkisrekin fyrirtæki á borð við happdrættið, orkufyrirtæki og þess háttar. Þau auglýsa aðeins í fjölmiðlum sem eru hliðholl stjórnvöldum, sem skapar markaðshalla og það gerir rekstrarskilyrði þeirra óháðu afar erfið.“

epa06014208 An image taken with a super wideangle lens shows an exterior view of the 'Le Berlaymont' building, hosting the EU Commission, in Brussels, Belgium, 07 June 2017.  EPA/OLIVIER HOSLET
Hús framkvæmdastjórnar ESB í Brussel. Mynd: EPA

Þessir valdatilburðir hafa ekki farið fram hjá Evrópusambandinu sem hefur reglulega áminnt Ungverja fyrir að fara ekki eftir reglum sambandsins.

Árið 2018 sagði Evrópusambandið að Ungverjar hefðu brotið reglur við uppbyggingu á götulýsingu sem var að hluta fjármögnuð af sambandinu. Forstjóri eins fyrirtækjanna sem tók þátt í því verkefni er tengdasonur Viktors Orban forsætisráðherra og því augljós hagsmunaárekstur þar. Þá var Viktor Orban veitt heimild í vor, tímabundið, til að setja lög framhjá þinginu, undir því yfirskyni að geta brugðist hratt við COVID 19 faraldrinum - nokkuð sem Evrópusambandið gerði líka athugasemdir við. Sambandið virðist þó ekki ætla að beita refsiaðgerðum vegna þessa.

Flókið einstigi

Eiríkur segir þetta sýna veikleika sambandsins - það hafi mjög takmarkað agavald gagnvart ríkjum og brottrekstur er það stór aðgerð að menn veigri sér við slíku. 

„Evrópusambandið hefur haft svo mikið á sinni könnu að það hefur ekki verið pláss fyrir fleiri mál. Nú eru tvö risavaxin vandamál uppi, annars vegar að takast á við kreppuna vegna kórónuveirunnar og svo að klára útgöngu Bretlands og samninga þar að lútandi. Þá er einfaldlega ekki á það bætandi að taka á valdboðstilburðum í Ungverjalandi og Pólland. Í raun var það þannig að Ungverjaland og Pólland héldu fjáhagsáætlun Evrópusambandsins í gíslingu og það þurfti einfaldlega að líta fram hjá þeirra brotum til að fá þau til að samþykkja fjárlögin svo að Evrópusambandið gæti tekist á við kreppuna vegna kórónuveirunnar. Þannig að þetta er gríðarlega flókið einstigi sem leiðtogar sambandsins þarf að feta.“

Mynd með færslu
Þessi mynd var tekin í desember síðsatliðnum, þegar allt að 400 manns tókst að komast inn á yfirráðasvæði Spánverja á Afríkuströnd Miðjarðarhafsins, Ceuta.  Mynd: EPA

En það er ekki aðeins hinsegin fólk sem verður fyrir barðinu á stefnu stjórnvalda. Hún hefur líka rekið harða innflytjendastefnu. Hún kemur sennilega hvergi betur fram en í viðbrögðum Viktors Orban eftir árásina á skrifstofur Charlie Hebdo í París árið 2015, þar sem hann sagði innflytjendur bera ábyrgð á árásinni. „Við munum aldrei láta Ungverjaland verða skotmark innflytjenda. Við viljum ekki sjá stóra minnihlutahópa með annan bakgrunn og menningu meðal okkar. Við viljum að Ungverjaland sé áfram Ungverjaland.“

Sama ár hófst straumur flóttamanna frá Sýrlandi og fleiri löndum til Evrópu. Orban sagði þetta fólk ekki vera að flýja stríðsátök í heimalandi sínu, heldur kæmi það aðeins til Evrópu í leit að betra lífi. Hann lét svo reisa girðingu meðfram landamærunum að Serbíu og Króatíu, og líkti henni við járntjaldið sem skildi að Vestur- og Austur-Evrópu.  „Gamla járntjaldið var byggt í andstöðu við okkur, þetta er byggt fyrir okkur,“ sagði hann.

Sýrlenskur flóttamaður sem var fundinn sekur um að hvetja fólk til að fara yfir girðinguna og kasta hlutum í lögreglu var dæmdur í sjö ára fangelsi fyrir þátttöku í hryðjuverki. Á fimmtudag dæmdi Evrópudómstóllinn aðgerðir stjórnvalda ólögmætar, en miðað við orð Eiríks má efast um að þetta hafi einhverjar frekari afleiðingar.

Og þegar framkvæmdastjórn Evrópusambandsins reyndi að skylda sambandslönd til að taka við ákveðnum fjölda flóttamanna vildi Orban ekki heyra á það minnst. „Það segir okkur enginn hverjum við hleypum inn í okkar hús,“ sagði hann.

epa07014579 (FILE) - Hungarian Prime Minister Viktor Orban  reacts during a speech at the plenary session at the European Parliament in Strasbourg, France, 11 September 2018 (reissued 12 September 2018). A majority of the European Parliament on 12
Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands. Mynd: EPA-EFE - EPA

Eiríkur segir þetta og skert réttindi hinsegin fólks birtingarmynd þjóðernisskotins popúlisma. Gerð er krafa um samstöðu hugmynda, í raun ákveðna einsleitni. „Allt frávik frá hinu hefðbundna er í raun talin ákveðin ógn við heildina, og það er það sem hér er á ferðinni. Það er verið að berja niður allt sem minnir á klassíkt evrópskt frjálslyndi, til dæmis umburðarlyndi gagnvart kynhneigð og kynhegðun. Þarna er það barið undir einhvers konar hugmynd um kristna ungverska þjóð sem marserar í takt og frávik eru ekki umborin.“

Meðvituð stefna að búa til óvini

Szabolcs tekur undir að stjórnvöld vilji útmála sjálf sig sem verndara kristinna gilda, gegn hinseginfólki og innflytjendum. Það sé í raun meðvitað verið að búa til óvini. „Viktor Orban varð í raun sá leitogi Evrópu sem var mest á móti innflytjendum eftir 2015. Svo gerði hann hinn ungversk ættaða fjárfesti George Soros að óvini lýðsins með skiltum um allt land. Núna er hinsegin fólk þeir sem allir eiga að hata.“

Sem kemur okkur aftur að Jozsef Szajer, hinum nú opinberlega samkynhneigða, og jafnframt útskúfaða, þingmanni. Mun kynsvall þessa dygga flokksmanns Fidesz-flokksins hafa einhverjar afleiðingar? Eiríkur Bergmann efast um það miðað við fordæmin.

„Ég held að þetta sé fyrst og fremst vandræðalegt fyrir flokkinn frekar en að það sé beinlínis hættulegt honum. En þetta fer eftir því hvernig menn takast á við þetta. Það er einfalt að skera svona mál frá - við höfum séð svona hluti gerast áður, til dæmis í verulega kristnum íhaldsflokkum. Þau eru hlægileg og vandræðaleg um sinn en breyta ekki stefnu eða afdrifum flokka til lengri tíma.

Sameinuð stjórnarandstaða gæti breytt landslaginu

Szabols segir hins vegar að þetta, ásamt öðru, geti haft slæm áhrif á Fidesz-flokkinn. „Það er erfitt að merkja þetta á könnununum því að Ungverjaland stendur nú frammi fyrir efnahagskreppu sem er verri en fjármálakreppan fyrir rúmum áratug. Því hafa vinsældir ríkisstjórnar Orbans farið minnkandi. Þar að auki stefnir stjórnarandstaðan nú að sameiginlegu framboði bæði til sveitarstjórna og þings, en hún var mjög ósamstæð í fyrri kosningum. Hún muni því sameinast um eitt forsætisráðherraefni í næstu þingkosningum sem verði vorið 2022. Það er því spennandi kosningabarátta framundan.“

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV