Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Ólympíuleikarnir væru úr sögunni vegna veikindanna

Mynd:  / EPA

Ólympíuleikarnir væru úr sögunni vegna veikindanna

19.12.2020 - 10:46
Ásdís Hjálmsdóttir veiktist nýlega af COVID-19. Hún lagði spjótið á hilluna eftir síðasta keppnistímabil og stefndi því ekki á Ólympíuleikana næsta sumar. Sem betur fer mögulega, enda segir hún að COVID veikindin hefðu hvort sem er gert út um þátttökuvonir á leikunum.

Ásdís var fremsti spjótkastari landsins áður en hún hætti í sumar. Hún keppti á þremur Ólympíuleikum auk fjölda stórmóta. Hún greindi nýverið frá því að hún hefði veikst af COVID-19 og þurfti hún að dvelja í viku á spítala í Svíþjóð vegna veikindanna. 

Ásdís segist ekki hafa náð sér að fullu eftir veikindin. Hún kom heim af spítalanum í síðustu viku og er nú orðin hitalaus en með hósta og öndunarerfiðleika. Hún segir veikindin hafa byrjað á því að maðurinn hennar veiktist og þau fóru því í sóttkví. Þegar hann hafði verið með einkenni í viku fór Ásdís sjálf að finna fyrir einkennum. „Ég er aðeins slöpp á föstudagskvöldi og svo vakna ég á laugardagsmorgni og þá er ég komin með hita og þennan svakalega höfuðverk og nefrennsli. Hann fékk út úr COVID prófinu sínu á laugardeginum þegar ég veikist. Þá vissum við að hann var jákvæður og þá var alveg augljóst að ég var jákvæð líka,” segir Ásdís í samtali við Morgunútvarpið á Rás 2. 

Á næstu dögum hækkaði hitinn hjá henni og hún byrjaði að hósta. Henni hafi svo hætt að standa á sama þegar hún lá upp í rúmi eina nóttina í svitabaði, hóstaði mikið og átti erfitt með að anda. Hún fór því upp á bráðamóttöku en var send aftur heim þar sem súrefnismettunin var ekki nógu slæm til að leggja hana inn. Hún fór þó aftur á spítala nokkrum dögum seinna og var þá lögð inn. „Við réðum ekkert við hitann, hann var kominn yfir 39 stig og paracetamol virkaði ekki lengur. Ég átti gífurlega erfitt með að anda, var að fá svo mikil hóstaköst að ég missti andann. Manninum mínum stóð ekkert á sama lengur, hann var orðinn skíthræddur," segir Ásdís. Nú var staðan orðin það slæm að það þurfti að leggja Ásdísi inn. „Þá fer ég inn á spítala og var þar í viku þar sem ég þurfti að fá súrefni,” segir Ásdís. Hún þurfti þó ekki á öndunarvél að halda en fékk slöngu í nefið til að ná upp súrefnismettun. „Ég þurfti að vera þarna í heila viku þangað til að þeir treystu sér til að senda mig heim. Ég þurfti að geta verið í heilan dag án súrefnis áður en þeir vildu senda mig heim og það tók heila viku að komast þangað,” segir Ásdís. 

Veikindin komu henni gríðarlega á óvart enda hefur hún passað sig mjög vel að undanförnu, aðallega af ótta við að vera sjálf einkennalaus og smita aðra. Innst inni hafi hún þó alltaf hugsað að ef hún myndi smitast yrðu einkennin væg enda ung og í toppformi. Eftir að hún hætti afreksæfingum hefur Ásdís sett meiri áherslu á úthaldsæfingar og lungun því í betra standi en á meðan hún æfði spjótkast. „Það skiptir engu máli hvað þú ert gamall eða í áhættuhóp, hvaða blóðflokk þú ert í eða takir D-vítamín. Það er enginn óhultur, þetta er eins og ég segi, bara rússnesk rúlletta. Þú getur sloppið en þú getur líka fengið þetta hrikalega illa, það er ekkert sem þú veist fyrirfram,” segir Ásdís

Eftir síðasta frjálsíþróttatímabil tilkynnti Ásdís að hún ætlaði að leggja spjótið á hilluna og stefnan því ekki sett á næstu Ólympíuleika. Hún segir fjölmarga hafa hvatt sig til að taka eitt tímabil í viðbót og ná leikunum. Ásdís er mjög fegin að hafa ekki tekið eitt tímabil í viðbót. „Það hefði heldur betur verið að óþörfu þær æfingar sem ég hefði gert hingað til ef ég ætlaði að reyna það. Nú eru komnar þrjár vikur síðan ég veiktist, ég er búin að vera meira og minna rúmliggjandi allan tímann og tapa gríðarlegum vöðvamassa. Sit hérna móð og másandi að tala við ykkur í símann. Ég er að reyna að æfa upp lungun með að fara í löturhægan labbitúr með hundana mína. Ég sé ekki fram á að ég geti tekið neinar alvöru æfingar, ég veit ekki einu sinni hvenær, allaveganna ekki næsta mánuðin. Ég hefði ekki bara verið komin á núllpunkt, heldur mínus. Að reyna að byrja aftur í janúar, febrúar eða mars. Það hefði allt verið úr sögunni ef ég hefði verið að reyna við Ólympíuleikana,” segir Ásdís.

Tengdar fréttir

Innlent

Ásdís Hjálmsdóttir lýsir COVID sem rússneskri rúllettu

Frjálsar

Ásdís hætt: „Góð tilfinning að geta endað svona“