Myndskeið með fréttinni er tekið af Þór Ægissyni, tökumanni RÚV.
Náttúruhamfaratrygging Íslands biðlaði til íbúa á Seyðisfirði í dag að tilkynna um tjón sitt eins fljótt og kostur er í gegnum heimasíðuna nti.is. „Húseignir og brunatryggt innbú sem orðið hefur fyrir aurskriðum á Seyðisfirði á síðustu dögum er skylduvátryggt hjá stofnuninni.“
Pétur Ármannsson, arkitekt hjá Minjastofnun, segir skriðurnar vera „skaða fyrir alla þjóðina.“ Tækniminjasafnið er illa farið, skrifstofubygging þess virðist horfin þar sem helstu og viðkvæmustu safnmunirnir voru geymdir. Skipasmíðastöðin sem húsafriðunarsjóður hefur styrkt síðustu ár fór undir skriðuna sem og trésmíðaverkstæði og hluti af gömlu vélsmiðjunni.
Pétur hefur verið að rýna í myndir af vettvangi og segir ljóst að hús sem hafi fengið styrk til endurgerðar séu stórskemmd. „ Þarna hafa íbúar lagt aleiguna í að bjarga þessum húsum.“ Það sem sé samt alvarlegra er að óvíst er hvort verði hægt að byggja aftur á þessum stöðum. „Þetta lítur mjög illa út.“
Það er þó ljós í myrkrinu; Wathne-torfan svokallaða virðist hafa sloppið sem og gamla pakkhúsið. „Það hefði verið hræðilegt að missa það.“ Þá hafi gamla ríkið einnig sloppið en það er friðlýst bygging.
Aftur á móti séu þarna hús eins og Breiðablik, Framhúsið og Turninn sem hafi orðið fyrir miklu tjóni og óvíst hvort þau verði byggð aftur. Þetta séu hús sem hafi mjög mikið byggingarsögulegt gildi. „Þetta nístir mig inn að beini því ég hef verið í sambandi við margt af þessu fólki í gegnum húsafriðunarsjóð.“