Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Mesta tjón á menningarminjum í seinni tíð“

19.12.2020 - 17:06
Mynd: Þór Ægisson / RÚV
„Þetta er svo mikið áfall. Ég hef verið að rýna í þessar síðustu myndir og ég held að það megi segja það að þetta er mesta tjón sem orðið hefur á menningarminjum í seinni tíð,“ segir Pétur Ármannsson, arkitekt hjá Minjastofnun Íslands. Svo virðist sem heilt safn hafi farið forgörðum í skriðunni á Seyðisfirði. „Og svo eru þarna íbúðarhús sem við höfum verið að styrkja endurgerð á og íbúar lagt aleiguna í að bjarga, sem eru stórskemmd.“

Myndskeið með fréttinni er tekið af Þór Ægissyni, tökumanni RÚV.

Náttúruhamfaratrygging Íslands biðlaði til íbúa á Seyðisfirði í dag að tilkynna um tjón sitt eins fljótt og kostur er í gegnum heimasíðuna nti.is. „Húseignir og brunatryggt innbú sem orðið hefur fyrir aurskriðum á Seyðisfirði á síðustu dögum er skylduvátryggt hjá stofnuninni.“

Pétur Ármannsson, arkitekt hjá Minjastofnun, segir skriðurnar vera „skaða fyrir alla þjóðina.“ Tækniminjasafnið er illa farið, skrifstofubygging þess virðist horfin þar sem helstu og viðkvæmustu safnmunirnir voru geymdir.  Skipasmíðastöðin sem húsafriðunarsjóður hefur styrkt síðustu ár fór undir skriðuna sem og trésmíðaverkstæði og hluti af gömlu vélsmiðjunni. 

Pétur hefur verið að rýna í myndir af vettvangi og segir ljóst að hús sem hafi fengið styrk til endurgerðar séu stórskemmd. „ Þarna hafa íbúar lagt aleiguna í að bjarga þessum húsum.“  Það sem sé samt alvarlegra er að óvíst er hvort verði hægt að byggja aftur á þessum stöðum. „Þetta lítur mjög illa út.“

Það er þó ljós í myrkrinu; Wathne-torfan svokallaða virðist hafa sloppið sem og gamla pakkhúsið. „Það hefði verið hræðilegt að missa það.“  Þá hafi gamla ríkið einnig sloppið en það er friðlýst bygging.

Aftur á móti séu þarna hús eins og Breiðablik, Framhúsið og Turninn sem hafi orðið fyrir miklu tjóni og óvíst hvort þau verði byggð aftur. Þetta séu hús sem hafi mjög mikið byggingarsögulegt gildi. „Þetta nístir mig inn að beini því ég hef verið í sambandi við margt af þessu fólki í gegnum húsafriðunarsjóð.“

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV

Á Facebook-síðu Tækniminjasafnsins kemur fram að fjöldi húsa, nokkur gömul og sögufræg, hafi skemmst auk þess sem aðalbygging hafi orðið fyrir umtalsverðum skemmdum. „Byggingin sem áður hýsti megnið af safnkosti safnsins, prentverkstæðið, skrifstofur og skjalasafnið er nú grafin undir þungu hlassi af aur og drullu.“

Skipasmíðastöðin, með sínu glænýja þaki, sem hýsti trésmíðaverkstæði sé bókstaflega horfin.

Enn er verið að meta stöðuna á Seyðisfirði, til að mynda rafmagn, vatnsveitu, fráveitu og fleira. Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, segir að öll dagskima hafi verið nýtt og siðan hófst fundur með Veðurstofunni klukkan 17. Allar rýmingar verða í gildi fram á morgundaginn og þá skýrist væntanlega hvort hægt verði að horfa eitthvað lengra fram í tímann. 

Enginn fær því að snúa aftur heim til Seyðisfjarðar í dag. Fjölmiðlar fengu að fara til bæjarins í dag og mynda eyðilegginguna sem varð í bænum eftir stóru skriðuna í gær. Ljóst er að tjónið er mikið eins og sést á myndskeiði Þórs Ægissonar, myndatökumanns, sem hægt er að sjá hér að ofan.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV