Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Unicef hjálpar fátækum börnum í Bretlandi

18.12.2020 - 19:30
Í grunnskóla í suðurhluta Lundúna. - Mynd: EPA / EPA
Unicef í Bretlandi ætlar að gefa efnalitlum barnafjölskyldum í landinu mat. Leiðtogi neðri deildar breska þingsins er ekki sáttur við framtakið. Framkvæmdastjóri Unicef á Íslandi, Birna Þórarinsdóttir, segir að efnahagsþrengingar vegna COVID-19 ýti milljónum fjölskyldna yfir lífshættulegan þröskuld sárafátæktar.

Unicef tilkynnti í gær að veitt verði ein milljón punda, sem jafngildir um 173 milljónum íslenskra króna, til hjálparsamtaka þar í landi. Bæði á að nýta fjármunina til að gefa fjölskyldum mat og eins til að gefa börnum morgunverð á meðan þau eru í jólafríi í ár og í vetrarfríi i febrúar. Unicef telur að hjá tuttugu prósentum barnafjölskyldna í Bretlandi sé staðan sú að börn fái ekki nóg að borða.  

Börnin sem njóta góðs af gleðjast líklega yfir þessi ákvörðun Unicef, en það sama er ekki að segja um alla. Jacob Rees-Mogg, leiðtogi neðri málstofu Breska þingsins, var gagnrýninn í garð Unicef í Bretlandi í gær og sagði að með þessu væri landsdeildin að skipta sér af stjórnmálum í landinu og að þetta væri hneyksli. „Hlutverk Unicef ætti að vera að huga að fólki í fátækustu ríkjum heims, þar sem fólk sveltur, þar sem hugursneyð ríkir og það eru borgarastyrjaldir,“ sagði Rees-Mogg.

Mynd með færslu
Jacob Rees-Mogg, leiðtogi neðri málstofu breska þingsins.  Mynd: AP

Þá benti hann á að stjórnvöld hefðu gripið til ýmissa aðgerða til að stemma stigu við fátækt og að breska ríkið ætli að verja fjögur hundruð milljónum punda á næsta ári til að styðja við fátækar fjölskyldur. 

Segir faraldurinn mestu krísu síðan í síðari heimsstyrjöld

Anna Kettley, framkvæmdastjóri Unicef í Bretlandi, segir að Unicef sé ekki pólitísk stofnun, heldur stofnun sem láti sig réttindi barna varða og hafi starfað í landinu í mörg ár. „Sem viðbragð við heimsfaraldrinum, sem er líklega stærsta krísa sem við höfum staðið frammi fyrir síðan í síðari heimsstyrjöldinni, vildum við nýta tækifærið og auka stuðning við börn og fjölskyldur í neyð,“ sagði hún í sjónvarpsviðtali í dag. 

epa08131884 Marcus Rashford of Manchester United during the English FA Cup 3rd round replay match between Manchester United and Wolverhampton Wanderers in Manchester, Britain, 15 January 2020.  EPA-EFE/PETER POWELL EDITORIAL USE ONLY. No use with unauthorized audio, video, data, fixture lists, club/league logos or 'live' services. Online in-match use limited to 120 images, no video emulation. No use in betting, games or single club/league/player publications.
Marcus Rashford, fótboltamaðurinn sem hefur barist ötullega gegn fátækt á Bretlandi. Mynd: EPA

Marcus Rashford, liðsmaður í breska landsliðinu í fótbolta og leikmaður Manchester United, hefur að undanförnu vakið athygli á fátækt í Bretlandi. Sjálfur ólst hann upp við sára fátækt og ekki var alltaf matur á borðum hjá fjölskyldunni. Hann hefur staðið fyrir söfnunum til að börn fái mat í skólafríum. Fátæk börn fá mat í skólanum en þegar það eru frí er staðan hjá sumum þannig að þau svelta. Baráttan hefur tvisvar sinnum leitt til stefnubreytingar hjá breskum stjórnvöldum. Hann fékk á árinu heiðursorðu Elísabetar Englandsdrottningar fyrir baráttu sína. 

Telur að reyna muni mikið á Unicef á næsta ári

Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri Unicef á Íslandi, segir að það sé vissulega óvenjulegt að Unicef veiti mataraðstoð í landi eins og Bretlandi. „Ég held að þetta dæmi sýni okkur toppinn á ísjakanum af þeirri neyð sem að farsóttin er að valda börnum um allan heim. Efnahagsþrengingar vegna COVID-19 eru að ýta milljónum fjölskyldna yfir lífshættulegan þröskuld sárafátæktar,“ segir Birna. 

Mynd með færslu
Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri Unicef á Íslandi.  Mynd: Þór Ægisson - RÚV

Þetta er í fyrsta sinn í sjötíu ára sögu Unicef sem mataraðstoð er veitt í Bretlandi. „Við horfumst í augu við eina mestu neyð sem að við höfum séð. Ákallið um neyðarfjármagn hjá Unicef er 30 prósent hærra fyrir næsta ár heldur en nokkru sinni áður, yfir 800 milljarðar króna til að mæta neyð barna og þá erum við að tala um um allan heim og þegar við lítum fram á veginn þá sjáum við öll teikn um að árið 2021 muni reyna sem aldrei fyrr á hlutverk Unicef um að vernda réttindi og velferð barna um allan heim.“