Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Þau eru Stúfarnir og ég er Leiðindaskjóða“

18.12.2020 - 09:01
Fimm litlir jólasveinar eru farnir á kreik á Akranesi fyrir jólin ásamt dagmömmu sinni. Hún hefur klætt börnin sem hún gætir upp sem jólasveina í ein átján ár.

Hún fer ekki fram hjá mörgum, litla jólasveinahersingin á Akranesi. Skagamenn þekkja vel þá sjón þegar Magný Guðmunda Þórarinsdóttir, eða Magga dagmamma, fer út með börnin uppáklædd sem jólasveina á aðventunni. 

„Við höfum farið út á eiginlega hverjum degi. Við höfum klætt okkur upp og fengið jólin í okkur.“

Hvernig finnst börnunum þetta?

„Þeim finnst það alveg æðislegt. Þau eru bara í hlutverki núna. Þau eru Stúfarnir og ég er Leiðindaskjóða. Þau bara standa í röð og bíða eftir því að ég klæði þau í búningana þegar þau vita að við erum að fara út.“

Og Akurnesingum þykir vænt um þetta?

„Já, mjög svo. Ég er búin að gera þetta núna í held ég átján ár með þau og tíu ár með mig. Ég fékk gefins jólasveinabúning. Það voru foreldrar hjá mér sem skruppu til London og keyptu á mig jólasveinabúning og gáfu mér í jólagjöf. Þannig við erum öll eins.“