Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands kallaði ráðherra sína til neyðarfundar í kvöld. Samkvæmt fréttum breska blaðsins The Telegraph er ástæða fundarins áhyggjur af nýju afbrigði kórónuveirunnar sem hefur orðið vart í landinu.
Á annað þúsund manna hafa greinst með þetta nýja afbrigði og því mögulegt að sóttvarnaraðgerðir verði enn hertar vegna þess. Breska ríkisútvarpið hefur eftir Johnson að hann sé þó vongóður um að komast hjá algeru útgöngubanni á Englandi.
Danska smitsjúkdómastofnunin kveður afbrigðið hafa greinst í níu manns eftir því sem fram kemur á vef danska ríkisútvarpsins. Ekkert bendi til að afbrigðið sé hættulegra öðrum afbrigðum kórónuveirunnar.