Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Nígerískir skóladrengir lausir úr haldi

18.12.2020 - 01:37
Vísinda- og tækniskóli ríkisins í Kankara í Nígeríu er heimavistarskóli fyrir unglingspilta. Vopnaðir menn réðust þar til atlögu síðla kvölds föstudaginn 11. nóvember 2020 og rændu allt að 400 piltum.
Hluti af heimavistarskólanum; Vísinda- og tækniskóla ríkisins, í Kankara í Katsína-ríki í norðvestanverðri Nígeríu Mynd: AP
Vel á fjórða hundrað nemenda við heimavistarskóla í Nígeríu eru sloppnir úr prísund vígamanna. Nemendurnir, allt drengir, voru numdir á brott í síðustu viku úr Vísinda- og tækniskólanum í Kankara í Katsina-ríki.

Aminu Bello Masari ríkisstjóri í Katsina staðfestir frelsunina, segir þá vera óhulta og að verið væri að kanna líðan þeirra og heilsu. Ekki sé þó alveg ljóst hvort einhverjir séu enn í haldi. 

Í upphafi var talið að glæpahópur, sem hefur haldið svæðinu í heljargreipum undanfarin ár, hefði staðið að árásinni á Vísinda- og tækniskólann á föstudaginn var. Vígasveitir Boko Haram lýstu loks mannráninu á hendur sér á þriðjudag.

Muhammadu Buhari forseti Nígeríu lýsti fögnuði yfir frelsun drengjanna á Twitter. „Frelsun þeirra er mikill léttir fyrir landið allt og alþjóðasamfélagið,“ skrifað forsetinn. 

Samkvæmt upplýsingum AFP fréttaveitunnar verða drengirnir fluttir til höfuðborgar Katsina eins fljótt og verða má. Þá verði hægt að átta sig á hve margir sluppu úr haldi ræningjanna og eins hvort einhverjum sé enn haldið föngnum.