Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Mike Pence bólusettur í beinni

Mynd með færslu
 Mynd: Hvíta húsið - Twitter
Mike Pence varaforseti Bandaríkjanna var bólusettur í dag með bóluefni Pfizer og BioNtech gegn COVID-19 í beinni útsendingu frá Hvíta húsinu. Tilgangurinn var að sýna Bandaríkjamönnum fram á öryggi og gagnsemi bóluefnisins.

„Ég fann ekki fyrir neinu. Vel af sér vikið,“ sagði varaforsetinn við lækninn sem bólusetti hann. Læknar frá Walter Reed hersjúkrahúsinu í Marylandríki höfðu umsjón með bólusetningu Pence og fleiri hátt settra embættismanna.

Auk varaforsetans voru Karen Pence eiginkona hans, Jerome Adams landlæknir, Robert Redfield yfirmaður sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna og Seema Verma, yfirmaður í heilbrigðisráðuneytinu bólusett. Bólusetningin er í tveimur hlutum og þarf að bólusetja aftur þremur vikum frá fyrri bólusetningu.

Donald Trump Bandaríkjaforseti dvaldi á Walter Reed spítalanum þegar hann greindist með kórónuveirusmit í október. Fleiri úr starfsliði forsetans hafa einnig greinst með smit. Forsetinn var ekki viðstaddur bólusetninguna sem var sýnd í beinni útsendingu á öllum helstu sjónvarpsstöðvum vestanhafs að beiðni aðstoðarfólks hans.

The New York Times hefur eftir heimildarmönnum innan Hvíta hússins að Trump hafi ekki sýnt neinn áhuga á að taka þátt í að kynna aðgerðir í baráttunni gegn COVID-19. Úrslit forsetakosninganna 3. nóvember virðist eiga hug hans allan.

Skömmu áður en bólusetningin hófst tísti forsetinn að rannsókn bandarísku alríkislögreglunnar, FBI, á meintum afskiptum Rússa af forsetakosningunum 2016 væri orðin enn meiri lygasaga en nokkru sinni fyrr.

Gert er ráð fyrir að Joe Biden, sem tekur við forsetaembættinu af Trump 20. janúar, verði bólusettur í beinni útsendingu í næstu viku.

Um þessar mundir látast á degi hverjum að jafnaði um þrjú þúsund Bandaríkjamenn af völdum COVID-19. Frá því að faraldurinn hófst snemma árs hafa um 311 þúsund látist þar í landi og rúmar 17 milljónir smitast samkvæmt tölum frá Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna.