Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Lögðu fram drög að nýjum kjarasamningi

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Samninganefnd flugvirkja hjá Landhelgisgæslunni lagði fram drög að heildstæðum kjarasamningi á sáttafundi hjá ríkissáttasemjara í gær. Guðmundur Úlfar Jónsson, formaður Flugvirkjafélagsins, segir mikilvægt að semja og komast hjá því að kjaradeilan fari fyrir gerðardóm.

Í lok nóvember voru sett lög á verkfall flugvirkja hjá Landhelgisgæslunni. Þau kveða á um að fram til 4. janúar gefst möguleiki á að semja og ljúka samningum. Ef það tekst ekki fer deilan fyrir gerðardóm. Í drögunum sem lögð voru fram í gær er áfram gert ráð fyrir tengingu við kjarasamninga flugvirkja á almenna vinnumarkaðinum. Kjaradeilan hefur einkum snúist um þessa tengingu. En hvers vegna er lögð áhersla á að leggja fram drög að samningi
      
„Það er einfaldlega vegna þess að flugvirkjar Landhelgisgæslunnar hafa verið með þessa tengingu í annan kjarasamning og farið eftir honum að hluta til og svo að hluta til sínum eigin viðaukum. Þarna erum við að sameina þessi tvö gögn í einn heildstæðan samning sem hentar bæði gæslunni og flugvirkjum.“

En hvers vegna vilja flugvirkjar komast hjá því að deilan fari fyrir gerðardóm? 
 
„Við teljum bara að það sé alltaf betra semja um sinn eigin kjarasamning heldur en að færa hann í hendurnar á gerðardómi. Það hefur verið okkar mat að koma að þessu sjálfir frekar en láta aðra fjallla um það,“ segir Guðmundur Úlfar.