Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Allar spár bendi til nýrrar bylgju á næstunni

18.12.2020 - 13:56
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson - RÚV
Flest bendir til þess að ný bylgja kórónuveirufaraldursins blossi upp á næstu vikum, eða jafnvel dögum. Þetta segir Thor Aspelund, einn þeirra sem stendur á bak við spálíkan Háskóla Íslands. Honum líst ekki nógu vel á þróun faraldursins hér á landi, smit síðustu daga hafi verið of mörg. 

Vísindafólk við Háskóla Íslands, embætti landlæknis og Landspítalann uppfærðu í gær spálíkan um þróun kórónuveirufaraldursins. Samkvæmt líkaninu eru blikur á lofti og gæti fjöldi smita undanfarna daga leitt af sér veldisvöxt, enda hafi umsvif í samfélaginu aukist í aðdraganda jóla. Thor Aspelund tölfræðingur segir að allar spár bendi til nýrrar bylgju eftir áramót en hún gæti byrjað fyrr, jafnvel á næstu dögum. 

„Já, það er alveg möguleiki. Við vorum svona bjartsýn að þetta myndi ná að haldast neðar alveg fram að aðfangadag, og þá myndi koma svona smá hlé milli jóla og nýars, og bakslagið kæmi þá í janúar.  En nú vil ég bara vera raunsær og við höfum áhyggjur af því að það komi aðeins fyrr. Þannig að við þurfum bara í alvöru talað að vera mjög varkár þessa vikuna,“ segir hann.

Thor ítrekar að þess vegna verði fólk að fara varlega áfram og megi ekki gleyma sér þrátt fyrir gott gengi. Hann telur þó að halda megi faraldrinum niðri með öflugri smitrakningu og áframhaldi á aðgerðum innanlands og á landamærum. 

„Það er bara um að gera að leggja áherslu á það líka. Að fara mjög varlega í kringum þá sem eru komnir að utan. Og að þeir sem voru að koma að utan passi mjög vel upp á sig þessa viku fram að jólum,“ segir Thor Aspelund.

Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV