Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Stjórnvöld mögulega of værukær gagnvart mútubrotum

Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan á Norðurlandi eystr
Verðandi framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Transparency International segir að skýrsla OECD um mútubrot sýni að stjórnvöld hér á landi hafi verið værukær gagnvart þessum málaflokki. Skýrsluhöfundar telja að íslensk stjórnvöld hafi vanmetið hættuna af slíkum brotum.

 

Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, birti í dag skýrslu starfshóps um mútubrot í alþjóðlegum viðskiptum. Í skýrslunni er fjallað um hvernig íslenskum stjórnvöldum gangi að framfylgja alþjóðlegum skuldbindingum til að berjast gegn þessum brotum.

Skýrsluhöfundar telja að stjórnvöld hafi sýnt ákveðið áhugaleysi á þessum málaflokki. Hættan hafi verið vanmetin og jafnvel megi túlka þetta sem ákveðna afneitun. Skortur sé á frumkvæði þegar kemur að rannsókn á meintum mútubrotum. Sérstaklega er minnst á Samherjamálið sem er til rannsóknar hér á landi og ytra, en einnig eru tiltekin þrjú önnur mál þar sem íslenskir viðskiptamenn voru sakaðir um mútugreiðslur en engin rannsókn fór fram hér á landi.

Árni Múli Jónasson verðandi framkvæmdastjóri nýrrar Íslandsdeildar Transparency International segir að íslensk stjórnvöld verði að taka þessar niðurstöður alvarlega.

„Við höfum haft áhyggjur af því og það er eitt af því sem hefur loðað við hér á Íslandi það er einhver sannfæring fyrir því að við séum laus við spillingu og séum af einhverjum ástæðum laus við ýmis vandamál sem aðrar þjóðir eru að glíma við. Og það er tilefnislaust að hugsa þannig það er bara út í bláinn. Enda hafa komið upp mál eftir mál í íslensku samfélagi, ég þarf svo sem ekki að telja þau öll, þar sem blasir við að spilling er vandamál í íslensku samfélagi, verulegt,“ segir Árni.

Í skýrslunni er þó einnig fjallað um þann árangur sem náðst hefur hér á landi - til að mynda ný lög um vernd uppljóstrara, eflingu fjármálagreiningar lögreglu og efnahagsbrotadeildar héraðssaksóknara.

Árni segir að mörgu leyti hafi íslensk stjórnvöld gerst sek um að vera værukær.

„Að vera værukær að þessu leyti er stórkostlegt vegna þess að spilling er gríðarlega mikill skaðvaldur á mörgum sviðum. Hún grefur undan réttindum fólks, hún bitnar alltaf verst á þeim sem verst standa sem minnstar tengingar hafa, sem fátækastir eru þannig að þetta er gríðarlegt réttlætismál að takast á við spillingu,“ segir Árni.

 

 

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV