Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir að forsendur tollasamnings hafi breyst

17.12.2020 - 22:10
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RUV
Utanríkisráðherra hefur óskað eftir því við Evrópusambandið að tollasamningur um landbúnaðarvörur verði endurskoðaður. Ráðherra segir að forsendur samningsins hafi breyst.

 

Samningurinn var undirritaður árið 2015 en markmið hans er skapa tækifæri til aukinna viðskipta milli Íslands og ríkja Evrópusambandsins.

Bændasamtökin hafa hins vegar gagnrýnt þennan samning og telja að hann þjóni ekki hagmunum íslenskra bænda. Í niðurstöðu úttektar sem stjórnvöld létu gera kemur fram að innflutningur á landbúnaðarafurðum hafi aukist ár frá ári eftir að samningurinn tók gildi en á sama tíma hafi útflutningur ekki staðið undir væntingum. Þetta hefur leitt til aukins vöruúrvals fyrir íslenska neytendur en jafnframt skapað verðþrýsting á innlenda framleiðslu.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir að forsendur samningsins hafi breyst og það kalli á endurskoðun.

„Það er alveg augljóst að það sem var lagt upp með á sínum tíma það hefur ekki gengið eftir. Þá er ég sérstaklega að vísa til þess að við ætluðum að flytja út mikið af skyri. Við flytjum út núna 3 prósent af því sem við sömdum um vegna þess nú eru farnar aðrar leiðir og það gæfi möguleik á því að flytja út undanrennuduft til þess að framleiða skyr í þessum löndum en það er ekki neitt slíkt inni í samningnum. Einnig hefur stærsta viðskiptalandið okkar farið úr Evrópusambandinu og það hefur ekki verið tekið neitt tillit til þess og þar er lunginn af útflutningi okkar í lambakjöti,“ segir Guðlaugur.

Guðlaugur segir að markmiðið með endurskoðuninni sé að draga úr því ójafnvægi sem ríkir á milli innflutnings og útflutnings.

„Við erum fyrst og fremst að reyna að fá hérna jöfnuð af þessum augljósu ástæðum sem ég hér nefndi. En bara svona út af umræðunni þá eru við áfram að fara flytja inn hefðbundna landbúnaðarvörur og neysluvenjur okkar hafa breyst mjög mikið og það er enginn að fara að taka parmesan af borðum Íslendinga svo það sé bara sagt,“ segir Guðlaugur. 

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV