Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

OECD gagnrýnir refsirammann fyrir mútubrot á Íslandi

Mynd með færslu
 Mynd: Michael Dean - OECD
Starfshópur á vegum OECD telur óljóst hvort refsiramminn við alþjóðlegum mútubrotum á Íslandi sé til þess fallinn að skila árangri í baráttunni gegn slíkum brotum og hvort refsing við því að greiða mútur sé mátuleg. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu starfshóps OECD um alþjóðleg mútubrot á Íslandi.

Skýrsluhöfundar fagna því að refsingin fyrir að greiða alþjóðlegar mútugreiðslur hafi verið lengd úr þriggja ára fangelsisvist í fjögurra ára fangelsi árið 2013, og síðar í fimm ára fangelsisvist árið 2018. Í skýrslunni segir að þetta hafi verið gert eftir að starfshópurinn hefði ítrekað lýst yfir áhyggjum af því að refsingin væri ónóg. 

Óútskýrt ósamræmi milli refsinga

Skýrsluhöfundar furða sig á því að refsingin fyrir að þiggja mútur sé þyngri en fyrir að greiða mútur, en þeir sem verða uppvísir að því að þiggja mútur geta átt yfir höfði sér sex ára fangelsisdóm. Einnig er bent á að refsing við því að greiða mútur sé vægari en refsing við peningaþvætti og bókhaldssvindi. Í skýrslunni segir að fimm ára hámark á refsingu við mútugreiðslum kunni að koma í veg fyrir að hægt sé að beita fjársektum og upptökuheimildum á þá sem brjóta lög með því að greiða mútur.

Eins og fram kom í fréttum fyrr í dag segir í skýrslunni að stjórnvöld hafi ekki sýnt baráttunni gegn mútubrotum nægan áhuga. Til dæmis hafi fáir hátt settir embættismenn látið sjá sig á kynningarfundum og vinnufundum og síðan 2017 hafi engir embættismenn héðan mætt á óformlega vinnufundi í tengslum við sáttmálann.

Þá telja skýrsluhöfundar að það skorti á frumkvæði stjórnvalda til að rannsaka brotin. Til dæmis segir að frumkvæði rannsóknarblaðamanna hafi verið nauðsynlegt til þess að stjórnvöld hefðu rannsókn á meintum brotum Samherja í Namibíu. Samherjamálið svokallaða er nú til rannsóknar bæði hér á landi og ytra. Skýrsluhöfundar segja það kærkomið að íslensk stjórnvöld hafi ákveðið að rannsaka það mál, í kjölfar umfjöllunar og rannsóknar Kveiks. 

Telja alvarlegra að þiggja mútur en að greiða

Í skýrslunni segir að íslensk stjórnvöld hafi sagst telja refsingu við því að greiða mútur nægjanlega. Vísað er til þess að fulltrúar dómsmálaráðuneytisins hafi sagt á fundi árið 2018 að munurinn á refsingum við því að þiggja mútur annars vegar og að greiða þær hins vegar skýrðist af því að samkvæmt íslenskri löggjöf teldist alvarlegri glæpur að þiggja mútugreiðslur en að greiða þær. 

Þar sem ekki hefur verið dæmt í málum tengdum mútubrotum hér á landi segja skýrsluhöfundar ómögulegt að segja til um það hvernig refsing yrði ákvörðuð þegar á hólminn væri komið, og hvort hún yrði nægjanleg, mátulega þung og til þess fallin að skila árangri. Þeir telja ekki síst erfitt að meta það í ljósi þess að ekki er í gildi sérstök stefna um það hvort refsing skuli vera skilorðsbundin. Þá segir að þrátt fyrir að fulltrúar stjórnvalda hafi sagt á fundi að refsing við efnahagsbrotum væri sjaldnast skilorðsbundin, séu þess dæmi. Í ljósi alls þessa hvetur OECD stjórnvöld til að huga sérstaklega að refsirammanum í kringum mútubrot.