Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Lítið vitað um áhrif bóluefna á aldraða

epa08886489 Epidemiologist Hilda Aleman administers a dose of the Pfizer / BioNTech laboratories' vaccine against covid-19 to a man at the Ashford Hospital in San Juan, Puerto Rico, 15 December 2020. Ten months after the start of the pandemic, Puerto Rico has become one of the first territories in the world to receive and implement the vaccination process against COVID-19, starting with hospital personnel.  EPA-EFE/Thais Llorca
Bólusetning með bóluefni Pfizer í Púertó Ríkó. Mynd: EPA-EFE - EFE
Fátt er vitað um virkni þeirra 50 bóluefna sem nú eru í þróun við COVID-19 hjá hjá þeim sem eru aldraðir eða veikburða.

Þetta segir í svari Magnúsar Jóhannssonar, prófessors emeritus í líflyfjafræði við Háskóla Íslands á Vísindavefnum þar sem spurt var hvort nýju mRNA-bóluefnin við COVID-19 hefðu verið prófuð á öldruðu fólki.

Ein af ástæðum þess að litlar upplýsingar fást um virkni bóluefnanna sem eru í þróun er samkeppni milli lyfjafyrirtækja sem keppast við að koma bóluefnum á markað. Alla jafna eru slíkar upplýsingar ekki opinberaðar fyrr en eftir að lyf eða bóluefni eru komið á markað.

Virkni viðunandi í elsta aldurshópnum

Því er fátt vitað um hvernig bóluefnin virka á aldrað eða veikburða fólk. Samkvæmt niðurstöðum einstakra rannsókna, sem sagt er frá í fréttatilkynningum eða bráðabirgðauppgjöri, virðist virkni bóluefna gegn kórónuveirunni vera ásættanleg í elsta aldurshópnum, þeim sem eru 70 ára eða eldri. Hver virknin er í raun og veru kemur ekki í ljós fyrr en síðar þegar lokauppgjör verður birt.

Fólk sem er áttatíu ára eða eldra er mörg hundruð sinnum líklegra til að látast af völdum kórónuveirunnar en það sem er yngra en fjörutíu ára. Ónæmiskerfi aldraðra er í eins konar stöðugu varnarástandi og með aldrinum fækkar ákveðnum frumum sem mynda hluta ónæmiskerfisins.

Bólusetningar við COVID-19 eru hafnar í Bretlandi, Bandaríkjunum, Rússlandi, Kína og fleiri löndum. Búist er við að bólusetningar hefjist í Evrópu fyrir áramót, þar á meðal á Íslandi. Fyrsta bóluefnið sem hingað kemur er frá Pfizer og BioNTech.

Mörg bóluefni byggð á nýrri aðferð

Sum þeirra bóluefna sem í þróun eru af nýrri gerð og innihalda hluta af erfðaefni veirunnar (mRNA). Miklar væntingar eru gerðar til þeirra. Tilgangurinn með slíkum bóluefnum er að fá frumur líkamans til að framleiða bindiprótín veirunnar og ræðst þá ónæmiskerfið, bæði mótefni í blóði og svokallaðar T-frumur, að þessum prótínum og eyðir þeim.