Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kepptust við að moka burt aurskriðunni á Seyðisfirði

17.12.2020 - 20:12
Enn er hætta á frekari aurskriðum á Seyðisfirði og appelsínugul viðvörun á Austfjörðum vegna rigninga. Vatn flæðir um götur Seyðisfjarðar og vatnsaginn er svo mikill að beðið er með að dæla úr kjöllurum. Þeim fjölgar sem yfirgefa hús sín af ótta við frekari skriður.

Regnið heldur áfram að steypast niður á Seyðisfirði. Við Botnahlíð féll enn ein aurskriðan í nótt og flæddi út á götu. Utar í bænum keppast verktakar við að koma stóru skriðunni sem féll á þriðjudag í burt. Aurnum er mokað upp á bíla og ekið með hann í burtu. Í skriðunni miðri þarf síðan að grafa niður farveg fyrir vatnið.

Aur stíflaði dælur í holræsum

Ofan í aurskriðurnar glíma bæjarbúar við vatnsflóð. 90 mm úrkoma mældist frá miðnætti. Holræsin hafa ekki undan og hafa dælur í kerfinu stíflast. „Núna erum við að dæla upp úr brunnum til að létta á kerfi bæjarins. Taka sand og drullu og spýtur og hreinsa úr dælubúnaði bæjarins til að létta á kerfinu. Það festist í þeim þannig að þær afkasta ekki eins og þær ættu að gera,“ segir Ingvar Birkir Einarsson, varaslökkviliðsstjóri Brunavarna á Austurlandi. Þegar fréttastofa ræddi við hann síðdegis hafði slökkvilið ekki verið beðið að dæla úr kjöllurum en var í viðbragðsstöðu. Beðið er með dælingu bæði vegna lokana inn á hættusvæði en líka þar sem viðbúið er að kjallarar myndu fljótt fyllast að nýju.

Treysta sér ekki til að vera í húsum sínum

Íbúar í efstu húsum á svokölluðu c-hættusvæði þurftu að rýma húsin sín en fleiri óttast aurskriður. „Fólk sem er á jöðrum hættusvæðisins hefur ákveðið að fara úr sínum húsum þótt það hafi ekki verið ákveðin eiginleg rýming á slíkum húsum,“ segir Guðjón Már Jónsson en hann er í svæðisstjórn björgunarsveita. Hann sjálfur ákvað að fara á hótel þó húsið hans væri ekki rýmingarsvæði.  „Ég sá ekki tilgang með því að vera að gista á mörkum hættulínunnar þannig að ég færði mig til,“ segir Guðjón Már.

COVID smit ekki það sem Seyðisfjörður þarf

Lögreglan hefur áhyggjur af þrengslum og því að samfélagið sem hefur verið laust við Covid smit geti reynst berskjaldað fyrir smiti. „Persónubundnar smitvarnir hvers og eins bæjarbúa hafa riðlast og jólakúla bæjarbúa hefur stækkað töluvert. Fólk sem á ekki hérna algjörlega brýnt erindi: Sleppið því að koma næstu daga. Við megum eiginlega ekki við því að fá COVID sýkingu inn í þetta litla samfélag hérna,“ segir Jens Hilmarsson, aðgerðastjóri lögreglunnar á Seyðisfirði. Aðgerðastjórn bað í dag ferðamenn, fréttamenn, sérfræðinga og fleiri sem hyggjast halda til Seyðisfjarðar á meðan ástandið varir, að leita áður til lögreglunnar í síma 444-0600 eða á netfangið [email protected]

Dregur úr rigningu eftir morgundaginn

Appelsínugul veðurviðvörun á Austfjörðum rennur út klukkan 9 í fyrramálið og gul viðvörun tekur við og gildir til hádegis á morgun. Ekki er þó hægt að segja að það stytti upp.  „Við erum svona að vona að eftir daginn á morgun fari að draga úr rigningunni,“ segir Guðjón Már.

Hættustig er enn í gildi á Seyðisfirði og verður rýming í gildi þriðju nóttina í röð. „Staðan verður tekin að nýju um klukkan ellefu á morgun og tilkynning þá send íbúum. Í þeirri sömu tilkynningu mun koma fram hvort þeim sé óhætt að huga að eigum sínum á rýmingarsvæði. Fjöldahjálparstöð verður opin til klukkan tíu í kvöld og opnar aftur átta í fyrramálið. Björgunarsveitarhús Ísólfs opnar á sama tíma og hægt að leita þar frekari upplýsinga,“ segir í tilkynningu frá Almannavörnum á Austurlandi.