Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Jarðhræringar auka mikilvægi Suðurnesjalínu 2

17.12.2020 - 07:22
Mynd með færslu
 Mynd: Landsnet
Landsnet telur að jarðhræringar á Reykjanesi undanfarið undirstriki mikilvægi þess að framkvæmdir við Suðurnesjalínu 2 hefjist sem fyrst. Það hefur sótt um framkvæmdaleyfi til hlutaðeigandi sveitarfélaga á svæðinu, en fyrirhugað er að línan verði milli Hamraness í Hafnarfirði og Rauðamels í Grindavík.

Lagning Suðurnesjalínu 2 hefur lengi staðið til og Landsnet áréttað mikilvægi þess að ráðast í framkvæmdina í áraraðir. Fyrirtækið heldur því fram að með línunni aukist afhendingaröryggi raforku á Suðurnesjum og flutningsgeta milli höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja sömuleiðis.

Hér má sjá þá valkosti sem Landsnet gefur fyrir lagningu Suðurnesjalínu 2 en sá kostur sem Landsnet hefur sótt um framkvæmdaleyfi fyrir er loftlína sem fer um Hrauntungur og liggur að mestu samhliða Suðurnesjalínu 1. Hún er alls um 34 km löng. Hér má nálgast matsskýrslu fyrirtækisins.

Fyrirhuguð lagning Suðurnesjalínu 2.

Álit Skipulagsstofnunar á nýju umhverfismati Suðurlandslínu 2 var gefið út 22. apríl. Samkvæmt tilkynningu frá Landsneti var þá farið aftur yfir matið og rætt við sveitarfélögin, Orkustofnun, landeigendur og verkefnaráð línunnar. Gögn um jarðvá voru þá sérstaklega yfirfarin af rannsóknaraðilum vegna aukinnar jarðskjálftavirkni á Reykjanesi undanfarið.

Skipulagsstofnun fór fram á í áliti sínu að sveitarfélögin sem hlut eiga að máli tækju sameiginlega afstöðu til framkvæmdarinnar. Frá útgáfu álitsins eru liðnir um sex mánuðir og ekkert lát virðist á jarðhræringum á Reykjanesi. Þetta segir Landsnet ýta enn frekar undir mikilvægi þess að tengja Suðurnes betur við meginflutningskerfi raforku. Beiðni um framkvæmdaleyfi var því send á viðkomandi sveitarfélög 11. desember.

Samanburður á stærð mastra Suðurnesjalínu 1 og 2.

Að sögn Landsnets byggir ákvörðunin um að sækja um framkvæmdaleyfi á grundvelli ákvæða raforkulaga sem kveða á um skyldur Landsnets til að koma upp öruggu og hagkvæmu flutningskerfi raforku sem og stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku hér á landi.

Auk þess byggir hún á ákvæðum laga um mat á umhverfisáhrifum, þar sem gert er skylt að leyfisveitingin byggi á upplýstri ákvarðanatöku út frá áhrifum framkvæmdarinnar á umhverfið. Bornir hafi verið saman valkostir, umhverfismatið verið kynnt opinberlega og almenningi og hagsmunaaðilum gefið tækifæri til að koma á framfæri ábendingum, að því er segir í tilkynningu frá Landsneti.