Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Hætt við freistnivanda hjá stjórnvöldum

Mynd: Bragi Valgeirsson / RÚV
Seðlabankastjóri hefur áhyggjur af að lífeyrissjóðir taki meiri áhættu í fjárfestingum til að uppfylla ávöxtunarviðmið sjóðanna, sem nú er 3,5%. Framkvæmdastjóri Samtaka lífeyrissjóða segist ekki sjá fyrir sér að viðmiðið verði lækkað vegna lágvaxtaumhverfis sem sé til skamms tíma. Hætt sé við því að það sé einhver freistnivandi hjá stjórnvöldum að ætla að nýta lífeyrissparnað til að fjármagna ríkisskuldir. Sjóðirnir meti fjárfestingakosti út frá hagsmunum sjóðfélaga.

Taki mið af áhrifum á fjármálastöðugleika

Í yfirlýsingu fjármálastöðugleikanefndar sem birt var í gær kemur eftirfarandi meðal annars fram:

Lágvaxtaumhverfi skapar nýjar áskoranir á fjármálamarkaði. Sérstaklega á þetta við um lífeyrissjóði sem eru ráðandi þátttakendur á innlendum fjármálamarkaði og kerfislega mikilvægir. Mikilvægt er því að við stefnumótun lífeyrissjóðakerfisins sem nú stendur fyrir dyrum verði tekið mið af áhrifum þeirra á fjármálastöðugleika. 

Hvað þýðir þessi samþykkt? Á fundi Seðlabankans þar sem yfirlýsingin var kynnt spurði Jón Bjarki Bentsson hagfræðingur Íslandsbanka eftirfarandi spurningar:

Hefur nefndin áhyggjur af því að lágvaxtaumhverfið sem vísað er til í yfirlýsingunni leiði til aukinnar áhættusækni lífeyrissjóða hvað varðar tegund eigna og myntsamsetningu?

Vextir hafa lækkað verulega

Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, benti á að lífeyrissjóðirnir væru gerðir upp með 3,5% ávöxtunarkröfu sem um leið markaði lífeyrisréttindin.

„Þegar þetta viðmið var sett á voru áhættulausir vextir í landinu miklu hærri en þeir eru í dag, kannski 5-6%. Það liggur náttúrulega í hlutarins eðli ef að lífeyrissjóðirnir hafa ákveðið markmið til framtíðar um að ávaxta lífeyrispeningana og að áhættulausir vextir lækka verulega, eins og þeir hafa verið að gera ekki bara núna heldur á síðustu 20 árum, þá leiðir það til þess að lífeyrissjóðirnir verða að sækja í aukna áhættu til að geta staðið við þessa skuldbindingu. Það er bara deginum ljósara,“ segir Ásgeir.

Hefur áhyggjur

Ásgeir sagði það ekki heppilegt að lífeyrissjóðirnir ættu aðeins ríkisskuldabréf. Ef þeir keyptu einungis þau væri komið upp gegnumstreymiskerfi.

„En hins vegar á móti þá má hafa áhyggjur af því að eina leiðin til þess að lífeyrissjóðirnir geti skilað 3.5% tryggingafræðilegri ávöxtun er það að þeir taki meiri áhættu. Taki að einhverju leyti það sem við köllum credit spread eða corporate áhættuálag, fari meiri í hlutabréf og svo framvegis. Þannig að það er alveg ástæða til að hafa áhyggjur af því. Og eins og fram kemur í yfirlýsingu nefndarinnar þá eru sjóðirnir kerfislega mikilvægir. Það er enginn vafi á því. Við erum með þrjá kerfislega mikilvæga banka sem búið er að búa mjög þéttan ramma í kringum þá. Tryggja það sem þeir gera hafi ekki neikvæð áhrif á kerfið okkar eða hagkerfið. Með einhverjum hætti þar að setja svipaða ramma utan um lífeyrissjóðina. Nákvæmlega hvernig er annað mál en það liggur fyrir að þess þarf.“

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Þórey S. Þórðardóttir

Freistnivandi hjá stjórnvöldum

Seðlabankastjóri segir að ástæða sé til að hafa áhyggjur af að til að lífeyrissjóðirnir nái að uppfylla ávöxtunarkröfuna verði þeir að sækja í meiri áhættu. Er Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða sammála þessu? Hún segir að það sé hættulegt að tala um þetta ávöxtunarviðmið núna þegar hagkerfið er í lágvaxtaumhverfi. Hún segir að sjóðirnir hafi skilað mjög góðri ávöxtun til langs tíma. Þeir séu langtímafjárfestar og þeir líti ekki til eins eða tveggja ára. Enginn viti hve lengi búið verði við lágvaxtaumhverfi hér á landi.

 „Þessi umræða er svolítið varasöm vegna þess að ríkissjóð vantar fjármuni. Lífeyrissjóðirnir eru mjög ábyrgir fjárfestar þar sem þér líta til hagsmuna sinna sjóðfélaga. Það er hætt við því að það sé einhver freistnivandi hjá stjórnvöldum að ætla að nýta lífeyrissparnað til að fjármagna ríkisskuldir. Ég held að það sé mjög varasamt“ segir Þórey.

Yfir 5% ávöxtun

Spurningin er hvort ávöxtunarviðmið lífeyrissjóðanna sé of hátt. Þórey segir að það sé hugsað til langs tíma og að sjóðirnir hafi náð þessu markmiði. Bæði 5 og 10 ára ávöxtun sé yfir 5%.

„Þegar vel hefur árað þá hefur maður heyrt að þrjú og hálft prósent sé og lágt en við vitum í raun ekkert hvað við komum til með að búa lengi í lágvaxtaumhverfi. Ef það er inn í framtíðina þá þarf að sjálfsögðu eitthvað að huga að því hver staðan er á þessu ávöxtunarviðmiði. En einhver lækkun á því mun varla hafa einhver markverð áhrif á hegðun sjóðanna því þeir eru að líta til langs tíma. Fjárfesta og meta sína fjárfestingakosti út frá hagsmunum sjóðfélaga,“ segir Þórey. 

Eignir 5.500 milljarðar

Er þá ástæða til að óttast í ljósi aðstæðna á vaxtamarkaðinum núna að sjóðirnir sæki í auknum mæli í áhættusamar fjárfestingar? Þórey ítrekar að sjóðirnir líti til lengri tíma. Þeir geti aðeins fjárfest í því sem er á markaði og þeir þurfi að meta stöðuna og dreifa áhættunni í eignasafninu. Hún segir að eignir sjóðanna í lok október hafi verið 5.500 milljarðar og hafi aukist um 10% á þessu ári.

„Þannig að það er alveg ljóst að þeir þurfa að fjárfesta og þeir þurfa að hafa dálítið rúmar heimildir til þess að meta hvað þeir telja best fyrir sína sjóðfélaga. Það er mjög hættulegt ef stjórnvöld falla í þá freistni að ætla að stýra því til að fjármagna skuldir ríkisins til skamms tíma og láta sjóðfélagana bera þann kostnað.“

Lækkun ávöxtunarviðmiðs hefði varla áhrif

Ávöxtunarkrafan eða viðmiðið er sett í reglugerð sem fjármálaráðuneytið gefur út. Er líklegt að það verði lækkað?

„Ég get ekki séð út af lágvaxtaumhverfi sem er til skamms tíma að það sé eðlilegt að hlaupa til og lækka ávöxtunarviðmiðið. Því að það mun varla hafa nokkur áhrif á hegðun sjóðanna,“ segir Þórey S. Þórðardóttir.
 

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV