Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Furðar sig á því hversu þétt er setið hjá Icelandair

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Sigurðsson - RÚV
Kona sem kom til landsins með Icelandair síðastliðinn laugardag, furðar sig á hvernig sóttvörnum var háttað, bæði um borð í flugvélinni og í sjálfri flugstöðinni. Hún var að koma frá Bali, átti að baki þrjá flugleggi með öðrum flugfélögum og segir Icelandair hafa staðið sig áberandi verst.  

„Upplifunin var sú að vélin var algerlega full, setið í hverju einasta sæti,“ segir Eva Birgitta Eyþórsdóttir. Hjá hinum flugfélögunum sem hún flaug með voru eitt til þrjú sæti á milli farþega, þá voru allir með sóttvarnaskerm en hjá Icelandair var gríma látin duga. Evu finnst þetta skjóta skökku við, í ljósi þess að víðast hvar í samfélaginu eru í gildi strangar takmarkanir og tveggja metra regla. „Ég skil ekki af hverju þeir mega þetta, af hverju sitja þeir við sér borð?“

Biðu um borð í vélinni

Eva gerir líka athugasemdir við það að eftir að vélin lenti á Keflavíkurflugvelli var farþegum tilkynnt að þeir þyrftu að bíða um borð, að sögn Evu í hálftíma eða klukkutíma. „Við máttum ekki fara inn því það voru þrjár eða fjórar vélar á undan okkur þannig að það var röð, örugglega vegna sýnatökunnar en við máttum ekki fara út og fara í flugstöðina sem ég hefði sjálf talið að væri betra því þar hefurðu meira pláss.“ Þá segir hún það hafa verið hálf spaugilegt, að þegar farið var frá borði hafi farþegar ítrekað verið minntir á að fylgja tveggja metra reglu. 

Loftför undanþegin sóttvarnareglum

Reglugerðir sóttvarnalæknis taka hvorki til loftfara né skipa í millilandaferðum. Þá eru engar reglur eða viðmið um að hafa skuli bil á milli farþega. Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að félagið taki sóttvarnir alvarlega og leitist við að dreifa fólki um vélarnar. Það fari eftir fjölda farþega hverju sinni. Þá leggur hún áherslu á að afar fá smit hafi verið rakin til flugferða, loftræstikerfin í vélunum séu öflug og eigi að hamla útbreiðslu sýkla. 

Eva Birgitta undrast líka að vélarnar hafi allar komið á sama tíma. Ekki fengust skýringar á því.

Ísavía sendi í dag frá sér fréttatilkynningu þar sem fram kom að vegna álags næstu daga geti sú staða komið upp að fleiri en ein vél lendi með stuttu millibili. Til að stýra álagi á skimunarbásum og forðast öngþveiti þurfi í einhverjum tilvikum að hleypa farþegum út úr vélunum í hollum.

Tilvitnun í Ásdísi Ýr var leiðrétt kl 19:11.

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV