Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Álasa stjórnvöldum fyrir slæleg viðbrögð gegn mútum

17.12.2020 - 12:09
epa04984670 Angel Gurria, chief of the Organization for Economic Cooperation and Development (OECD), speaks at the opening of the World Scienece & Technology Forum at an OECD Ministerial Meeting in the central city of Daejeon, South Korea, 20 October
 Mynd: EPA - YNA
Ísland þarf að bæta verulega getu til að greina mútur og merki þess að slík brot eigi sér stað hér á landi. Í nýrri skýrslu OECD segir að þrátt fyrir að Ísland hafi skrifað undir sáttmála OECD gegn mútum og spillingu fyrir meira en tuttugu árum hafi stjórnvöld fyrst nú nýlega hafið rannsókn á mútubrotum. Málefninu hafi ekki verið sinnt með fullnægjandi hætti.

Starfshópur OECD um mútur hefur nýlokið fjórða hluta greiningar á innleiðingu íslenskra stjórnvalda á sáttmála um baráttu gegn mútum í alþjóðaviðskiptum.

Starfshópurinn hafði í fyrri skýrslum hvatt til þess að stjórnvöld legðu sig fram um að rannsaka með fullnægjandi hætti þær ásakanir sem kæmu fram og ráðast í frumkvæðisrannsóknir á meintum mútumálum. Þá var hvatt til þess að embættismönnum innan löggæslunnar, utanríkisþjónustunnar og dómkerfisins yrði tryggð þjálfun til að greina og rannsaka mútur og sækja þá til saka sem gerast sekir um slíkt athæfi. 

Ekki nægur áhugi íslenskra stjórnvalda

Í fjórðu skýrslunni kemur fram að stjórnvöld hafi ekki sýnt málefninu nægan áhuga. Til dæmis hafi fáir hátt settir embættismenn látið sjá sig á kynningarfundum og vinnufundum og síðan 2017 hafi engir embættismenn héðan mætt á óformlega vinnufundi í tengslum við sáttmálann. 

Þá segir að vegna þess hversu vel Ísland hefur komið út úr mælingum á spillingarvísitölu þjóða á lista Transparency International, kunni íslensk stjórnvöld að hafa tekið því sem gefnu að spillingarhætta hér á landi væri lítil sem engin.

„Mútubrot íslenskra fyrirtækja í viðskiptum erlendis voru talin ólíkleg og ekki vandamál þar sem ásakanir um slík brot komu ekki fram,“ segir í skýrslunni.

Hætta á að spillingarhættan sé vanmetin

Hins vegar sé ljóst að einfalt traust á lista Transparency International skapi hættu á því að stjórnvöld vanmeti hættuna og afneiti jafnvel spillingarhættu. Þannig geti ofurtrú á að íslensk fyrirtæki og einstaklingar stundi alls ekki mútur grafið undan greiningu og árvekni stjórnvalda.

Þá segir að íslensk fyrirtæki hafi lítið sem ekkert gert í því að koma sér upp sérstakri stefnu eða áætlun um varnir gegn mútubrotum, að frátöldum dótturfyrirtækjum stórra alþjóðafyrirtækja sem starfa á Íslandi.

Engu að síður starfa mörg umsvifamikil íslensk fyrirtæki á mörkuðum og í atvinnugreinum sem eru talin sérstaklega útsett fyrir mútubrotum. Til dæmis í sjávarútvegi, orkuiðnaði eins og jarðhitavinnslu og í lyfjaiðnaði. 

Skortir á frumkvæði stjórnvalda

Þetta sýnir sig best, að mati skýrsluhöfunda, í því að eitt af stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum Íslands sætir nú ásökunum um að hafa mútað fulltrúum stjórnvalda í Angóla og Namibíu til þess að komast yfir veiðiheimildir.

Samherjamálið svokallaða er nú til rannsóknar bæði hér á landi og ytra. Skýrsluhöfundar segja það kærkomið að íslensk stjórnvöld hafi ákveðið að rannsaka það mál, í kjölfar umfjöllunar og rannsóknar Kveiks. Hlutverk rannsóknarblaðamanna er undirstrikað í skýrslunni og sagt hafa verið nauðsynlegt.

„Hins vegar eru skýrsluhöfundar áhyggjufullir vegna skorts á frumkvæði íslenskra stjórnvalda í málum sem fjallað er um í fjölmiðlum og vegna þess að ásakanir í þessum málum hafi ekki verið kannaðar til hlítar eða rannsakaðar,“ segir í skýrslunni.

Þrjú mútumál sem voru ekki rannsökuð

Í skýrslunni eru hins vegar tiltekin þrjú önnur mál þar sem íslenskir viðskiptamenn eru sagðir hafa mútað opinberum starfsmönnum erlendra ríkja sem ekki eru aðilar að sáttmála OECD gegn mútum og spillingu. Í þessum málum ákváðu íslensk stjórnvöld að rannsaka ásakanirnar ekki vegna óskýrra upplýsinga, en rannsókn fór fram ytra.

Í skýrslunni segir að tvö þessara mála fjalli um ásakanir á hendur sama íslenska lyfjafyrirtækinu, en það er ekki tilgreint hvaða fyrirtæki það er. Þar eru meintar mútugreiðslur sagðar hafa verið gerðar milli 2007 og 2009 og árið 2012.

Þriðja málið er ásökun á hendur Íslendings sem sagður er hafa verið milliliður þar sem samið var í krafti spillingar um sölu á þyrlum til ríkis sem er aðili að sáttmála OECD um mútur og spillingu. Salan átti sér stað árið 2012.

Íslensk stjórnvöld fengu veður af þessu máli þegar ríkið sem ætlaði að kaupa þyrlurnar óskaði eftir lagalegri aðstoð og fékk frá Íslandi árið 2016. Stjórnvöld hér hófu hins vegar ekki sjálfstæða rannsókn á málinu og reiddu sig á rannsókn hins ríkisins. Þeirri rannsókn lauk án saksóknar árið 2017 vegna skorts á sönnunargögnum.

Áhyggjur af aðgerðaleysi Íslands

Skýrsluhöfundar segjast hafa töluverðar áhyggjur af aðgerðaleysi íslenskra stjórnvalda í mútu- og spillingarmálum. Ekki síst vegna þeirrar staðreyndar að á þeim 20 árum sem liðin eru síðan umræddur sáttmáli tók gildi hefur Ísland ekki rannsakað neitt alþjóðlegt mútubrot, fyrr en rannsókn á Samherjamálinu hófst.

Þegar sagt hefur verið frá ásökunum um slíkar mútur hafa þær ekki verið kannaðar eða, eftir atvikum, rannsakaðar.

„Jafnvel þó að skýrsluhöfundar taki til greina að töluvert afl hafi farið í að vinna úr eftirmálum efnahagshrunsins árið 2008 og, nú nýlegar, að bæta peningaþvættisregluverk Íslands, þá verður Ísland að lúta alþjóðlegum skuldbindingum í baráttunni gegn alþjóðlegum mútubrotum,“ segir í skýrslunni.

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV