Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Afnámi ívilnunar við kaup tengiltvinnbíla frestað

17.12.2020 - 05:38
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Alþingi hefur ákveðið að fresta fyrirhugaðri niðurfellingu ívilnunar sem tengiltvinnbílar hafa notið í formi lækkaðs virðisaukaskatts, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins í dag.

Til stóð að taka fyrsta skrefið í átt til þess að fella ívilnunina niður um áramótin, hún átti að lækka enn frekar um áramótin 2022 og falla alveg niður 1. janúar 2023.

Í Morgunblaðinu er haft eftir Jóni Trausta Ólafssyni forstjóra bílaumboðsins Öskju að margir kaupi tengiltvinnbíl á leið sinni í hreinan rafbíl enda hafi drægni slíkra bíla hafi aukist hratt.

Því hafi Bílgreinasambandið hvatt til að viðhalda ívilnunum áfram en í máli Jóns Trausta kemur sömuleiðis fram að þær séu nú þrengdar þannig að bílar sem mengi minnst og dragi lengst njóti hennar.

Stuðningnum sé þannig beint að bílum með raunverulega drægni á rafmagni einu saman. Þannig verði flýtt fyrir orkuskiptum landsmanna með áframhaldandi ívilnunum.