Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Skriðan hefði getað fallið hvar sem er úr Botnabrún

16.12.2020 - 10:16
Mynd með færslu
 Mynd: Haukur Óskarsson - Aðsend mynd
Þónokkrar smáar skriður féllu úr fjallinu ofan við syðri byggðina á Seyðisfirði í nótt. Hættustig almannavarna vegna skriðufalla á Seyðisfirði og óvissuástand á Austurlandi vegna mikillar rigningar. Veðurstofan varar við skriðuhættu í neðri hlutum fjalla eftir langvarandi vætutíð.

„Við erum að bíða eftir að sjá til fjalla,“ segir Bjarki Borgþórsson, flóðaeftirlitsmaður á Seyðisfirði, í samtali við fréttastofu. Hann segir að einhverjar spýjur hafi náð niður í byggð síðan stóra skriðan féll síðdegis í gær. Þær hafi þó aðeins náð niður í húsagarða.

Sólarhringsúrkoma á Seyðisfirði síðan í klukkan 9 í gær var 127,7 mm. Á sama tíma var sólarhringsúrkoma á Eskifirði 125,2 mm og í Neskaupstað 98,9 mm. Enn rignir á Seyðisfjörð og spáð er áframhaldandi úrkomu fram á helgina.

Bjarki segist hafa séð litla skriðu koma niður hlíðina fyrir ofan syðri byggðina í gærmorgun. En svo hefur stóra skriðan fallið eftir að tugi metra löng fylla sprakk út. Sú skriða náði alveg niður á Austurveg sem liggur ofan við eyrina þar sem Norræna leggst að.

Björgunarsveitarmenn voru á ferðinni í alla nótt, að sögn Bjarka. Þeir hafi heyrt skruðninga og læti í vatni í alla nótt en um þrjú leytið fór að hægjast um.

Hættusvæðið er Botnabrún

Skriðurnar falla allar úr Botnabrún sem ofanflóðasérfræðingar fylgjast vel með. „Hættan var í 100 metra hæð. Þetta er kallað Botnabrún sem nær frá Grákambi að Þófum. Margra kílómetra löng brún sem er að meginparti yfir allri suðurbyggðinni. Það hefði getað komið hvar sem úr þessari brún í gær.“

Bjarki segir að einhverjir staðir hafi verið líklegri en aðrir, þaðan sem skriður gátu fallið. Mest er hættan þó í Botnum og í Þófum. Fyrir neðan Þófa er athafnasvæði.

Skriðurnar verða þegar grunnvatnið, sem sífellt bætist í með mikilli rigningu, finnur sér leiðir í gegnum efsta lag jarðvegsins sem verður svo þungur að jarðvegsfyllur brotna úr brúninni.