Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Peningastefnan hjálpað til að bregðast við faraldrinum

Fjármálastöðugleikanefnd. Efri röð frá vinstri: Tómas Brynjólfsson, Bryndís Ásbjarnardóttir, Guðmundur Kristján Tómasson og Axel Hall. Neðri röð frá vinstri: Rannveig Sigurðardóttir, Ásgeir Jónsson, Gunnar Jakobsson og Unnur Gunnarsdóttir.
 Mynd: Seðlabanki Íslands
Aukinn sveigjanleiki í peningastefnu Seðlabankans í kórónuveirufaraldrinum hefur gert heimilum og fyrirtækjum auðveldara um vik að takast á við afleiðingar hans.

Þetta segir í yfirlýsingu fjármálastefnunefndar Seðlabanka Íslands. Klukkan 10:00 hefst vefútsending þar sem yfirlýsingin verður kynnt og nánari grein gerð fyrir henni. Umsjón með henni hafa Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri og formaður fjármálastöðugleikanefndar, og Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri og staðgengill formanns nefndarinnar.

Að sögn nefndarinnar hefur peningastefnan sömuleiðis gert kleift að viðhalda fjármálastöðugleika hér á landi. Með því að auka magn lánsfés í umferð hefur fjármálafyrirtækjum reynst auðveldara að starfa með lántakendum sem eiga í erfiðleikum með að standa í skilum og á sama tíma tryggja að útlánageta sé stöðug. Það er mat nefndarinnar að sveiflukennd kerfisáhætta hafi ekki að neinu marki aukist undanfarin misseri.

Lágvaxtaumhverfi skapar nýjar áskoranir

Fjármálastefnunefndin segir stöðu hinna þriggja íslensku banka góða, vaxtaálag á skuldabréfaútgáfur þeirra hafi farið lækkandi og þeir því með góðan aðgang að lausu fé, bæði í innlendri og erlendri mynt. Þessar aðstæður hafi þeir nýtt til endurfjármögnunar og búa þeir yfir „miklum viðnámsþrótti til að takast á við neikvæðar afleiðingar farsóttarinnar.“

Eftir að kórónuveirufaraldurinn hófst hefur Seðlabankinn lækkað vexti mikið og eru þeir nú í sögulegu lágmarki, 0,75 prósent. Þetta umhverfi lágra vaxta skapar að mati nefndarinnar nýjar áskoranir á fjármálamarkaði, einkum hvað varðar lífeyrissjóði. Þeir séu kerfislega mikilvægir ráðandi þátttakendur á íslenskum fjármálamarkaði og því er brýnt að tekið sé tillit til þess við stefnumótun þeirra hve mikil áhrif þeirra eru á fjármálastöðugleika.

Fjármálastöðugleikanefnd hefur ákveðið að nýtt millibankakerfi Seðlabankans og verðbréfauppgjörskerfi Nasdaq CSD SE teljist til kerfislega mikilvægra innviða.

Eitt hlutverka nefndarinnar er að ákveða gildi á sveiflujöfnunarauka á fjármálafyrirtæki á hverjum ársfjórðungi. Hún hefur nú ákveðið að halda aukanum óbreyttum.

„Fjármálastöðugleikanefnd mun beita þeim stýritækjum sem hún hefur yfir að ráða til að varðveita fjármálastöðugleika hér á landi,“ segir í lokum yfirlýsingarinnar.