Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Ísland hríðfellur á lista SÞ miðað við umhverfisþætti

16.12.2020 - 14:16
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun - RÚV
Ísland fellur um 26. sæti á lífsgæðalista Sameinuðu þjóðanna ef tekið er tillit til umhverfisþátta. Noregur, sem hefur setið í toppsætinu í áraraðir, fer niður um 15. sæti ef sömu viðmiðum er beitt.

Ísland er eftir sem áður í fjórða sæti listans sem oft er nefndur lífsgæðalistinn. Hann má finna í nýrri skýrslu Þróunarstofnunar SÞ um mannlega þróun (e. Human Development) sem gefin er út í þrítugasta skipti. Listinn tekur tillit til þjóðarframleiðsla sem og þátta líkt og menntunar, heilbrigðisþjónustu, jafnrétti kynjanna og jöfnuðar.

Í fyrsta sinn eru áhrif lífsgæða á jörðina með neyslu og tilheyrandi kolefnisfótspori tekin með í reikninginn. Og það hefur mikil áhrif á röðun þjóða. Margar vestrænar þjóðir sem hafa reglulega raðast ofarlega hrapa niður listann þegar neysla þjóðanna er tekin með.

Ísland var í fimmta til sjötta sæti á síðasta lífsgæðalista og hefði farið í fjórða sætið miðað við óbreyttar forsendur við gerð listans. Finnland vermir þrítugasta sætið ásamt Íslandi en var áður í því ellefta. Danmörk færist upp um fimm sæti, úr tíunda í það fimmta og Svíþjóð úr sjöunda í sjötta.

Skýrslan verður kynnt formlega í Stokkhólmi á fimmtudag.

Leiðrétt klukkan 15:40 – Í upprunalegri útgáfu þessarar fréttar var sagt frá því að Ísland hafi fallið um 26 sæti á listanum sjálfum. Hið rétta er að Ísland fellur um 26 sæti á listanum þegar tekið er tillit til umhverfisþátta.

thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV