Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Grænt plan samþykkt í borgarstjórn

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2021 og fimm ára áætlun sem gildir til 2025 var samþykkt í borgarstjórn í kvöld. Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að rekstur A-hluta borgarsjóðs verði neikvæður um 11,3 milljarða vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins.

Þó sé gert ráð fyrir að reksturinn verði jákvæður að tveimur árum liðnum. Að sögn Dags B. Eggertssonar borgarstjóra er stærsta verkefnið að vinna gegn atvinnuleysi og efnhagssamdrætti.

Jafnramt sé ætlunin að fara í 175 milljarða fjárfestingar á næstu þremur árum, sem fyrst um sinni fylgi lántökur. Til standi að þróa borgina í græna átt með svokölluðu Grænu plani sem sé „efnahahagsleg, umhverfisleg og samfélagsleg sóknaráætlun“ út úr kreppunni.

Meðal þess sem gert er ráð fyrir í planinu, sem var samþykkt í kvöld, er að verja milljarði á næsta ári í að skapa ný störf fyrir atvinnulaust fólk og fimm milljörðum á næstu árum til húsnæðis fyrir fatlað fólk og heimilislaust. Jafnframt verði félagslegum íbúðum fjölgað.

Sömuleiðis er gert ráð fyrir uppbyggingu útvistarsvæða, þremur nýjum sundlaugum, knatthúsi í vesturbæ og bættri íþróttastöðu víða um borgina. Framlög vegna sárafátæktar barnafjölskyldna verða hækkuð og meira fé verður lagt til móðurmálskennslu í leik og grunnskólum.

Í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar er gert ráð fyrir að byggðar verði 10 þúsund íbúðir á næstu tíu árum, sem verði flestar nærri borgarlínu og lifandi atvinnukjörnum eins og það er orðað í tilkynningu.

Sömuleiðis er lögð áhersla á borgarlínu, orkuskipti í samgöngum og lagningu hjólastíga um allt höfuðborgarsvæðið. Ætlunin er að verja tíu milljörðum til þess að færa þá þjónustu sem mögulegt er á stafrænt form og öðru eins til viðhalds á húsnæði í eigu borgarinnar.