Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Flug hefst á ný milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja

16.12.2020 - 15:03
Mynd með færslu
 Mynd: Ólöf Ragnarsdóttir - RÚV
Flug hefst á ný milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja í næstu viku og búast má við að tvær ferðir verði farnar í hverri viku. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur ákveðið að semja við Icelandair um að tryggja lágmarksfjölda ferða á flugleiðinni. Samningurinn gildir til 1. maí á næsta ári.

Hefðbundið áætlunarflug milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja lagðist af í september þegar eftirspurn dróst verulega saman vegna kórónuveirufaraldursins. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, segist binda vonir við að flug til Vestmannaeyja geti hafist með reglubundnum hætti með vorinu.

Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að verðkönnun hafi verið gerð hjá Flugfélaginu Erni, Icelandair og Norlandair. Hægt verði að framlengja samninginn við Icelandair um tvær vikur í senn og einnig sé heimilt að fella samninginn niður án fyrirvara, hefjist áætlunarflug á markaði að nýju innan gildistíma hans. Allar tekjur félagsins af miðasölu og fraktflutningum á flugleiðinni komi til frádráttar greiðslum vegna samningsins.