Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Fjárhagsstaða leigjenda versnar

Meðfylgjandi eru myndir af húsum sem byggð hafa verið fyrir stofnframlög og þar sem fólk er þegar flutt inn í leiguíbúðirnar. Um er að ræða fjölbýlishús við Móaveg og Urðarbrunn í Reykjavík og Asparskóga á Akranesi.
 Mynd: Aðsend mynd - Íbúðalánasjóður
Leigjendum hefur fækkað eftir að kórónuveirufaraldurinn braust út og fleiri búa nú í foreldrahúsum. Fjárhagur leigjenda versnar en fjárhagur þeirra sem búa í eigin húsnæði batnar.

Þetta kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu hagdeildar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Leiguverð hefur almennt verið að hækka að undanförnu. Á höfuðborgarsvæðinu í október mældist tólf mánaða breyting vísitölu leiguverðs neikvæð um 1,1%. Hún hækkaði um 0,4% á milli ára í mánuðinum á undan. Þetta er annar mánuðurinn í röð og sá fimmti á árinu sem vísitalan lækkar á milli mánaða.

Vísitalan á höfuðborgarsvæðinu byrjaði að lækka í lok síðasta árs en hefur sveiflast nokkuð á árinu. Hratt dró úr hækkunum í sumar. Eftir að hafa lækkað nokkrum sinnum milli mánaða á árinu er vísitalan fyrir höfuðborgarsvæðið nú með svipað gildi og hún var í ágúst í fyrra.

Leiguverð í nágrenni höfuðborgarsvæðisins hækkaði hins vegar um 2,8% á milli ára í október. Þar voru einnig talsverðar hækkanir í vor og byrjun sumars. Hæst náði ársbreytingin í júlí eða fimm prósent. Annars staðar á landsbyggðinni mælist í heild neikvæð breyting í sama mánuði á milli ára. Það er þriðji mánuðurinn í röð sem tólf mánaða breytingin er neikvæð þar. Vísitalan hefur lækkað á milli mánaða tvo mánuði í röð.

Leiga hækkar á höfuðborgarsvæðinu eftir lækkun undanfarið

Meðalfjárhæð greiddrar leigu á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um sjö þúsund krónur frá september til október og var þá 194 þúsund krónur. Samkvæmt skýrslunni er ástæðan að meðalstærð íbúða eykst um 2,4 fermetra á milli mánaða, úr 73,4 fermetrum í 75,8 fm. Meðalfjárhæð greiddrar leigu hefur ekki náð sömu hæðum og í maí 2019 og lækkað síðan með sveiflum í millitíðinni. Frá árinu 2017 hefur meðalstærð leiguíbúða minnkað um 6,3% eða um fimm fermetra það sem af er þessu ári. Frá árinu 2018 nemur þessi lækkun á meðaltalinu um 5,6%, eða sem nemur 4,4 fermetrum.

Leigumarkaður dregst saman í faraldrinum

Leigjendum hefur fækkað hlutfallslega á árinu, einkum ef skoðað er tímabilið fyrir og eftir að faraldurinn braust hér út. Talsverð breyting er á hlutfalli þeirra sem eru á leigumarkaði ef borið er saman meðaltal mælinga á einu ári fyrir COVID-19 við meðaltal mælinga á árinu eftir að faraldurinn braust út. Þeim fækkar um 3,7 prósentustig. Hlutfall þeirra sem búa í foreldrahúsum eykst sem og hlutfall þeirra sem búa í eigin húsnæði.

  Í eigin húsnæði Á leigumarkaði Í foreldrahúsum Annað
Eftir Covid* 73,1% 12,9% 11,5% 2,5%
Fyrir Covid** 70,8% 16,6% 9,7% 2,9%

* Meðaltal apríl til nóvember 2020 ** Meðaltal janúar 2019 til janúar 2020.

Samkvæmt skýrslunni er líklegt að þessi þróun hafi byrjað að hluta til aðeins áður en faraldurinn braust út hér á landi. Í janúar voru merki um að leigumarkaðurinn hafi verið byrjaður að dragast lítillega saman og þeim tekið að fjölga sem bjuggu í foreldrahúsum. Byrjað að hægja á hjólum atvinnulífsins í fyrra þetta því hugsanleg afleiðing þess. Vextir lækkuðu í fyrra og enn stærri skref tekin í vaxtalækkunum í mars. Það hefur auðveldað mörgum festa kaup á eigin húsnæði.

Yngra fólk í foreldrahús en eldra í eigið húsnæði

Ef skoðað er meðaltal mælinga áranna 2019 og 2020, má sérstaklega greina breytingu í aldurshópnum 18-24 ára en sá hópur er að færa sig af leigumarkaði og í foreldrahús eins og sést í töflunni hér fyrir neðan. Líklega má tengja það við slæmt atvinnuástand þessa aldurshóps vegna samdráttar í ferðaþjónustu og tengdum greinum. Aldurshópurinn 25-34 ára er hins vegar að færa sig af leigumarkaði yfir í eigið húsnæði, en greina má tilfærslu í öllum eldri aldurshópum af leigumarkaði yfir í eigið húsnæði, sem er í takt við þróun á fasteignamarkaðnum í kjölfar vaxtalækkana.

Hlutfall öryrkja í eigin húsnæði eykst

Þegar búseta er skoðuð eftir stöðu á vinnumarkaði er ein mesta breytingin hjá öryrkjum. Öryrkjum sem búa í eigin húsnæði fjölgaði úr 57% árið 2019 í 65% árið 2020. Hlutfall öryrkja á leigumarkaði lækkar úr tæpum 34% í rúm 31%. Sama má segja um hlutfall þeirra öryrkja sem búa í foreldrahúsum, þeim fækkaði úr 5,3% í 1,6%. Talsverðar sveiflur geta verið í mælingum en nóvembermælingin hækkar til að mynda meðaltal öryrkja á leigumarkaði úr 29,0% í 31,2% milli ára og lækkar meðaltal þeirra sem búa í eigin húsnæði úr 67,3% í 65,2%. Hlutfall launþega í fullu starfi á leigumarkaði lækkaði úr 16% í 12%.

Fjárhagsstaða leigjenda versnar milli ára

Fjárhagur leigjenda versnar á meðan fjárhagur þeirra sem búa í eigin húsnæði batnar. Hlutfall þeirra sem búa í eigin húsnæði og telja sig geta safnað talsverðu eða einhverju sparifé um hver mánaðamót eykst um þrjú prósentustig á milli ára. Í skýrslunni stendur að skýringin sé sennilegast sú að vextir hafa lækkað mikið það sem af er ári og því greiðslubyrði lána.

Þeim sem svara á sama hátt og eru að leigja fækkar um fjögur prósentustig. Skýring gæti verið sú að þeir sem hafa flust af leigumarkaði og keypt sér eigið húsnæði hafi verið með hærri ráðstöfunartekjur en þeir sem eftir sitja á leigumarkaði. Því sé fjárhagsstaðan verri að meðaltali og meðalhlutfall ráðstöfunartekna sem fer í leigu hækkar.

Eftir stöðu á vinnumarkaði og óháð búsetu sést að fjárhagsstaða versnar mest hjá námsmönnum og öryrkjum, en batnar mest hjá þeim sem eru á eftirlaunum.

Breyting á milli kannana 2019 og 2020

Staða á vinnumarkaði Geta safnað Endar ná rétt saman Nota sparifé/safna skuldum
Launþegi í fullu starfi 4% -5% 2%
Launþegi í hlutastarfi 5% 4% -8%
Atvinnurekandi/sjálfstætt starfandi 1% -3% 2%
Í námi -13% 9% 4%
Á eftirlaunum 9% -6% 0%
Öryrki -4% 6% -2%