Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Eftirlitsstofnanir vilja gulltryggja gæði andlitsgríma

Mynd með færslu
 Mynd: pixabay
Ekki hefur tekist að sannreyna að andlitsgrímur sem notaðar eru til dæmis á hjúkrunarheimilum og heilsugæslum hér á landi virki fullkomlega og séu öruggar. Ekki hafa heldur fram prófanir á spritti, en nokkuð hefur verið um innkallanir á því undanfarið. Neytendastofa innkallaði í dag grímur sem seldar voru í þremur apótekum.

Komast ekki að hjá prófunarstofum

Neytendastofa, Umhverfisstofnun og Vinnueftirlitið fóru fyrr á árinu í samstarf um að sannreyna gæði þessa veiruvarnings. Stofnanirnar hafa um margra mánaða skeið reynt að senda sýnishorn af því sem notað er hér í prófun hjá faggiltri rannsóknarstofu í Evrópu, en engin slík stofa er starfrækt á Íslandi. Prófanirnar áttu að fara fram í ágúst eða september, en vegna anna hjá prófunarstofunum úti hefur þetta dregist ítrekað. 

Það er mikið eftirlit með grímum á markaði hér og neytendur því ágætlega varðir fyrir falsvarningi. Eftirlitsstofnanir fara yfir öll gögn sem fylgja innfluttum grímum, Lyfjastofnun tryggir að grímur ætlaðar heilbrigðisstarfsfólki séu vottaðar og Neytendastofa fer yfir pappíra sem fylgja grímum ætluðum almennum neytendum. Þær grímur sem eru í umferð hér uppfylla sem sagt grunnkröfur á pappír en eftirlitsstofnanirnar vildu með prófununum sannreyna að gæðin væru í samræmi við yfirlýsingar í fylgigögnum. Guðrún Lárusdóttir, gæðastjóri Neytendastofu, segist vona að af prófunum verði í þessum mánuði en að líklega verði bóluefnið komið áður en af þessum prófunum verður. 

Fær reglulega gylliboð

Evrópusambandið hefur fjármagnað þessar prófanir. Í öðrum Evrópuríkjum hafa þær í ákveðnum tilvikum leitt til þess að vottaðar grímur eða vörur sem litu vel út á pappír voru teknar úr notkun. Guðrún segir að almennt sé mikið af falsgrímum á markaði og starfsmaður innflutningsaðila sem fréttastofa ræddi við sagðist reglulega fá gylliboð frá nýjum framleiðendum. 

Innkölluðu í dag grímur í þremur apótekum

Neytendastofa hefur frá því faraldurinn hófst stöðvað innflutning eða sölu á yfir hundrað grímutegundum sem ekki uppfylltu grunnkröfur eða báru misvísandi merkingar. Guðrún segir að almennt hafi innflytjendur litla þekkingu á grímum, þetta sé svo nýtt. Síðast í dag vakti stofnunin athygli á innköllun á andlitsgrímum sem meðal annars hafa verið seldar í Lyf og heilsu, Apótekaranum og Lyfju. Innflutningsaðilinn er S. Gunnbjörnsson ehf. Við skoðun á grímunni kom í ljós að þær voru ranglega merktar fyrirtækinu 3M, framan á kassanum var grímunni lýst sem grímu fyrir matvælaiðnað, Neytendastofa segir ljóst að grímurnar veiti litla sem enga vörn gegn veirum eða öðrum ögnum. Þá bárust stofuninni engin gögn um virkni vörunnar, þrátt fyrir fyrirspurnir. Stofnunin hvetur alla sem keypt hafa þessar grímur til að skila þeim á sölustað eða henda þeim. 

Uppfært 18:50: Forsvarsmaður Lyfju segir að grímurnar sem um ræðir hafi einungis verið til sölu í einni verslun keðjunnar í mars. 

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV