Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Aurskriða féll í byggð á Seyðisfirði

16.12.2020 - 18:24
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Stór aurskriða féll úr Botnabrún í Seyðisfirði á gær. Vatn og leðja rann niður eftir Austurvegi. Fleiri skriður féllu í nótt.

Mikil rigning á Austurlandi

Mikil rigning hefur verið á Austurlandi undanfarna daga. Dregið hefur úr rigningunni á Seyðisfirði í dag. Bæjarbúar kepptust við að dæla vatni úr kjöllurum húsanna.

Enn er mikið vatn í skriðunni og rennur það eftir henni. Vatn flæðir enn inn í kjallarana.

Í nótt voru húsin þar sem skriðurnar féllu rýmd. Það þýðir að enginn mátti vera í húsunum vegna hættu á fleiri skriðum. Íbúar húsanna gistu á gistiheimilum í bænum eða hjá ættingjum og vinum. Íbúar fengu að sækja helstu nauðsynjar í morgun. Óvíst er hvenær fólk fær að snúa aftur heim.

„Á kafi í viðbjóði“

Jón Ólafsson er einn þeirra sem þurftu að rýma heimili sitt. Hann mátti ekki sofa heima hjá sér í nótt. Hann gisti á hótel Snæfelli á Seyðisfirði. „Ég var í vinnunni og fékk símtal upp úr hálf fjögur um að ég ætti kannski að ég ætti kannski að kíkja heim, þá var allt á kafi í drullu og vatn að síga inn,“ segir hann.

Óþægilegt þegar náttúran tekur völdin

Ómar Bogason hjá Síldarvinnslunni á Seyðisfirði, þurfti að rýma vinnustaðinn í gær. Honum brá enda var starfsfólk Síldarvinnslunnar á hættusvæðinu.

„Það var hringt í okkur seinni partinn í gær og við beðin að rýma fiskvinnsluna og bræðsluna líka. Okkur varð ekki um sel,“ segir Ómar. „Við vorum með starfsmenn í verbúð sem er á hættusvæði. Við rýmdum það strax. Öryggið skiptir öllu og það er það sem við vinnum eftir. Þetta eru ótrúlegir tímar og maður hefur ekki séð annað eins. Svo við bíðum bara róleg.“

Veðurstofan metur aðstæður

Bjarki Borgþórsson er lögreglumaður og eftirlitsmaður fyrir Veðurstofuna. Hann fór að meta aðstæður eftir að það birti. „Síðan verðum við að sjá hvernig næstu spár verða miðað við úrkomu.“

annathr's picture
Anna Sigríður Þráinsdóttir
málfarsráðunautur